Kaffikrókurinn: Beitum ekki bandarískum eða stórevrópskum samkeppnisreglum á íslenskan örmarkað

13.11.2024

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segist telja að ekki sé hægt að beita „bandarískum eða stórevrópskum“ samkeppnisreglum á íslenska kjötmarkaðnum. Hann varði eindregið nýlega lagabreytingu um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum í viðtali við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum.

Í Kaffikróknum í síðustu viku sagðist Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins telja að mögulega hefði verið gengið of langt með lagabreytingunni með því að veita afurðastöðvum í svína- og kjúklingakjöti undanþágu, en Bjarni tók ekki undir það og tókust þeir Ólafur talsvert á um málið í þættinum. Aðspurður um mögulega sameiningu stærstu svínaframleiðenda landsins, sem jafnframt eru stærstu innflytjendur svínakjöts og í eigu „ríkra fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu“ eins og Ólafur orðaði það, sagði forsætisráðherra: „Þessi svínabú sem þú ert að tala um eru litlar einingar og þær eru öreiningar í einhverju evrópsku samhengi. Setjum þetta í danskt samhengi. Þetta eru ekki stór svínabú. Þetta eru pínulitlar einingar og þær eru að hluta til að keppa við innflutt kjöt.“



Bjarni benti á að FA talaði fyrir því að hægt væri að flytja kjöt til landsins á sem lægstum tollum. Það væri framleitt af risaverksmiðjum. „Að vera að hafa einhverjar áhyggjur af því að hér á innanlandsmarkaði, þar sem við erum með örfyrirtæki í þessum samanburði, geti menn náð einhverri hagræðingu með sameiningum eða samvinnu það finnst mér bara ekki vera málefnalegt.“

Sami markaður, tvenn lög
Ólafur benti á að slíkum árangri mætti ná án undanþágna frá samkeppnislögum. Hann benti líka á að kjötafurðastöðvarnar væru orðnar stórir kjötinnflytjendur. Innflutningsfyrirtæki í FA og afurðastöðvarnar kepptu um sömu viðskiptavini á sama markaði, en um fyrirtækin giltu tvenn lög – annars vegar gætu menn farið í fangelsi fyrir samráð og þyrftu að fara í gegnum nálarauga Samkeppniseftirlitsins með samruna en hins vegar þyrftu afurðastöðvar engar áhyggjur af samkeppnisyfirvöldum að hafa. „Þetta finnst fólki hróplegt óréttlæti og hér situr formaður Sjálfstæðisflokksins og réttlætir það bara,“ sagði Ólafur.

Bjarni sagði að ekki mætti horfa undan þegar það kæmi í ljós að kjötvinnsla  á Íslandi gengi ekki nógu vel. Það ætti að horfa á landbúnað sem alvöru atvinnugrein, fjárfesta í henni og nýta nýjustu tækni. „Það gerist ekki ef við ætlum að beita einhverjum bandarískum eða stór-evrópskum samkeppnisreglum á þennan örmarkað sem Ísland er.“

Lokun ehf-gatsins „húrrandi vinstripólitík“
Ólafur spurði Bjarna út í  áform Samfylkingarinnar um að loka ehf-gatinu, eins og það er kallað, og hækka fjármagnstekjuskatt. en þar hefur verið vísað til þess að fjármálaráðuneytið undir hans stjórn hafi viljað grípa til slíkra aðgerða. Bjarni sagði að umræðan ætti uppruna sinn í því að sveitarfélögin hefðu haft áhyggjur af að fá ekki útsvarsgreiðslur frá skattgreiðendum sem greiddu fyrst og fremst fjármagnstekjuskatt. Hins vegar væri þetta ekki eins útbreitt og talið hefði verið. Bjarni benti á að fjármagnstekjur væru mun hærri hjá eldra fólki og tók dæmi af hjónum sem væru komin á lífeyrisaldur og ættu sparnað í einkahlutafélagi. „Hvað er kerfið að segja við þetta fólk? Heyrðu þið eruð að haga ykkur óeðlilega. Við ætlum að taka hátekjuskatt af sparnaðinum ykkar. Þetta eru auðvitað kolröng skilaboð og koma ofan á að það á að fara með fjármagnstekjuskattinn í 25%.“

Bjarni benti á að fjármagnstekjuskatturinn legðist á verðbætur og vaxtakostnaður væri ekki frádráttarbær. Þannig væri ekki verið að skattleggja raunávöxtun. „Þetta er galin hugmynd, ég verð að segja það. Fólk verður að fara að vakna hérna fyrir þessar kosningar. Hugmyndin um að endurskoða ekki skattstofninn en halda áfram að hækka prósentuna er algjörlega galin. Það er blekking að vísa í Norðurlöndin þar sem skattstofninn er fenginn með allt öðrum hætti.“

Bjarni sagði að hið svokallaða ehf-gat væri í fyrsta lagi ekki eins útbreitt vandamál og margir hefðu talið, þ.e. að eigendur einkahlutafélaga færi ranglega launatekjur sem fjármagnstekjur, og hefði í öðru lagi meira með það að gera að ríki og sveitarfélög skiptu skatttekjum jafnt með sér en að það væri ósanngjarnt að fólk hefði tekjur af ehf-félögum. Í þriðja lagi væri skattlagning ehf-félaga ekki sérstaklega hvetjandi miðað við að hafa tekjur sem launamaður. „Við eigum sem samfélag að segja: Við stöndum með þér í að spara. Við munum ekki koma í bakið á þér. Við munum ekki taka af þér hátekjuskatt af fjármagnstekjum, sparnaðurinn þinn myndast eftir að þú hefur greitt tekjuskattinn. Þetta er alveg húrrandi vinstripólitík, sem gengur út á að jafna niðurstöðuna fyrir alla.“

Tollar lækki, beinn stuðningur við bændur hækki
Spurður út í tollamál sagðist Bjarni vilja skilgreina verðmæti þess fyrir Ísland að fá greiðari aðgang að markaði Evrópusambandsins fyrir sjávarafurðir, en þá yrði Ísland að lækka tolla á landbúnaðarvörum á móti. „Ég myndi nota allan ávinninginn af útflutningsmöguleikum okkar til að standa með bændum í þeirra framleiðslu þannig að þeir gætu þá betur staðist samkeppnina sem biði þeirra með auknum innflutningi,“ sagði Bjarni. „Ég tala fyrir því að við gerum minna af því að vera með óbeina vernd og meira með beinan stuðning. Það á að stórauka gagnsæið. Ég vil sjá uppstokkun á þessu kerfi,“ sagði Bjarni.

Ólafur og Bjarni ræddu ýmis fleiri mál, til dæmis einföldun regluverks, afnám lagaskyldu til jafnlaunavottunar, fasteignaskatta fyrirtækja, umdeild afskipti fjármálaráðuneytisins af tollflokkun sem nú er enn á ný fyrir dómstólum og notkun ríkisstarfsmanna á flugvildarpunktum í eigin þágu.

Þátturinn á Spotify

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning