Kaffikrókurinn: Segist ekki boða stórkostlegar breytingar á ehf-félagaforminu

12.11.2024

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir að lokun ehf-gatsins svokallaða þýði ekki neina stórkostlega breytingu á ehf-félagaforminu. Breytingin muni koma við þá atvinnurekendur eða einyrkja sem hafa meiri tekjur en 1.250 þúsund krónur á mánuði. Þetta kom fram í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda á YouTube og Spotify, en Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri félagsins ræðir þar við stjórnmálamenn um málefni fyrirtækjanna nú í aðdraganda kosninga.

Ólafur spurði Kristrúnu út í áform Samfylkingarinnar um að loka ehf-gatinu svokallaða og sagðist ekki sjá betur en að þar væri skattaaðgerð á ferðinni sem myndi hitta lítil og meðalstór fyrirtæki beint fyrir. Kristrún benti á að sambærileg áform hefðu verið í upphaflegum stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar og ábendingar hefðu komið um þetta frá alþjóðastofnunum, til dæmis Alþjóðagjaldeyrissjóðnum; að hægt væri að telja fram launatekjur í formi fjármagnstekna og greiða minni skatta. Fjármálaráðuneytið væri á sömu skoðun og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði veitt svar þess efnis á Alþingi.

Snertir þá sem hafa meira en 1.250 þúsund á mánuði
„Ekkert af Norðurlöndunum er með það fyrirkomulag sem við erum með varðandi reiknaða endurgjaldið og að geta í raun ákvarðað hversu stór hluti er laun og hversu stór hluti fjármagnstekjur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við erum ekki að boða einhverja stórkostlega breytingu á ehf-félagaforminu. Fólk getur áfram verið með hefðbundinn rekstur, fjárfest og dregið frá eðlilegan kostnað, það er bara verið að gera kröfu um – af því að það getur skapast ákveðinn hvati ef þú ert með laun yfir 1.250 þúsund krónur á mánuði – og allar tekjur sem þú ert með undir því sem einstaklingur breyta í raun engu um hvort þú ert með það inni í ehf eða ekki – að það sé ekki hvati til að gefa ranglega upp launatekjur sem fjármagnstekjur,“ sagði Kristrún.

Ólafur vitnaði í samtal við atvinnurekanda sem sagðist hafa byggt upp fyrirtæki sitt með því að taka mikla áhættu og skuldsetja sig, hefði sett arðinn að mestu leyti í innri vöxt fyrirtækisins og væri ekki ánægður með að nú segðust stjórnmálamenn ætla að skattleggja í meira mæli þann litla arð sem hann gæti loksins greitt sér. „Þessi aðili á ekkert að þurfa að hafa áhyggjur af því ef þetta er raunverulegur arður út af fjárfestingu sem var í fyrirtækinu. Núna erum við bara að tala um ef þú ert með launatekjur og gefur það upp sem annað en launatekjur – þessi hvati kemur ekki til nema þú sért með laun yfir 1.250 þúsund. Það þarf alveg að vera á hreinu. Þannig að allir smiðir, píparar og hárgreiðslufólk þarna úti – það eru mjög fáir aðilar sem greiða sér svona mikið í launatekjur.“

Fyrirtækjunum finnst fyrirsjáanleika skorta
Kristrún segist hafa heimsótt 250 fyrirtæki á undanförnum misserum. Hún upplifi það sterkt að fyrirtækjum þyki skorta fyrirsjáanleika hjá stjórnvöldum og löggjafanum og að ekki sé hlustað eftir sjónarmiðum þeirra eða þeim gefinn tími til að koma þeim á framfæri þegar gera á breytingar á starfsumhverfinu. Þess vegna leggi Samfylkingin svo mikla áherslu á að vera með plan. „Það segir kannski allt sem segja þarf um íslensk stjórnmál og kannski Ísland í heild sinni að það þyki svolítið sérstakt að stjórnmálaflokkur skuli taka sig til með svona miklum fyrirvara og leggja niður lykillínurnar og reyna að finna rauðan þráð,“ segir Kristrún.

Engin áform um lækkun á tryggingagjaldi eða áfengissköttum
Kristrún sagði Samfylkinguna ekki vera með áform um breytingar á tryggingagjaldi og hún tók ekki undir að lækka ætti áfengisskatta, sem eru þeir hæstu í hinum vestræna heimi. Hún sagðist þeirrar skoðunar að það sem vægi þyngra hjá fyrirtækjum væru vextir, verðbólga, launakostnaður og húsnæðiskostnaður. „Ég hef talað við fullt af fólki sem er að reka lítil fyrirtæki með vínveitingaleyfi og veit alveg að þetta er þungt. En ég veit líka að það sem vigtar mjög þungt á þessi fyrirtæki er launakostnaður sem er kannski 70% af rekstri þessara fyrirtækja. Og af hverju er launakostnaður svona hár? Það er vegna þess að verðbólga, vextir og húsnæðiskostnaður þeirra sem þau eru með í vinnu eru svo há. Fyrir mér er áfengisgjaldið ekki stóra myndin gagnvart rekstrarumhverfi veitingastaða.“

Opin fyrir breytingum á lögum um starfsmenn ríkisins
Ólafur ræddi um áherslu Samfylkingarinnar á betri opinberan rekstur. Hann benti á að starfsfólk stjórnsýslunnar nyti orðið sömu eða betri kjara en starfsmenn á almennum markaði, en forstöðumenn ríkisstofnana kvörtuðu undan því að erfitt væri að reka þær eða standa undir hagræðingarkröfu vegna sérréttinda ríkisstarfsmanna á borð við uppsagnarvernd. Kristrún sagðist alveg opin fyrir því að endurskoða lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.

„Að hluta til eru þessi lög barn síns tíma,“ sagði hún. „Það skiptir auðvitað miklu máli að stjórnsýslan verði nútímavædd og það sé svigrúm innan hennar til að taka eðlilegar ákvarðanir. Fólk þarf auðvitað að vera með ákveðinn fyrirsjáanleika í sínu starfi en það er ekkert eðlilegt að það séu gerðar minni kröfur til þín í starfi þótt þú vinnir hjá hinu opinbera en á einkamarkaði. Þannig að við erum alveg opin fyrir því að gera breytingar á þessum lögum. Það þarf bara að gerast með eðlilegum hætti, í takt við nútímavinnumarkað. Ég á bara mjög bágt með að trúa því að ef maður myndi tala við nýjustu starfsmennina í stjórnsýslunni, ungt fólk, að það gerði athugasemdir við það.“

Tilhlökkunarefni fyrir fyrirtæki að landlæknir verði ráðherra?
Ólafur og Kristrún ræddu margt fleira í Kaffikróknum, meðal annars gullhúðun Evrópureglna og einföldun regluverks, úrelta áfengislöggjöf, einkavæðingu og samkeppni ríkisfyrirtækja við einkafyrirtæki, undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum,  hvort ríkisstarfsmenn ættu að fá að nota vildarpunkta sem skattgreiðendur borga fyrir þá í eigin þágu og hvort það væri tilhlökkunarefni fyrir fyrirtæki að Alma Möller landlæknir yrði mögulega heilbrigðisráðherra.

Þátturinn á Spotify

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning