Kartöflur Kafka

20.10.2016

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 20. október 2016.

IMG_2484Um áramót verða allir innflutningstollar á Íslandi aflagðir – nema á ýmsum tegundum matvöru. Stjórnmálamenn keppast við að segja okkur að tollvernd sé nauðsynleg til að vernda íslenzkan landbúnað og tryggja fæðuöryggi. Það er óhætt að segja að sú vernd tekur stundum á sig súrrelískar myndir.

Ríkið leggur til dæmis 76% toll á franskar kartöflur. Þegar forsætisráðherrann okkar var landbúnaðarráðherra var hann spurður á Alþingi hvort honum fyndist það eðlilegur tollur og svaraði því til að það væri „fullkomlega eðlilegt að við beitum tollvernd til að verja innlenda framleiðslu eins og öll önnur ríki gera.“

Tollurinn verndar samt ekki innlenda landbúnaðarframleiðslu. Eitt lítið fyrirtæki framleiðir franskar kartöflur – að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Þannig að tollurinn verndar í bezta falli mjög þrönga sérhagsmuni í iðnaði. Það er líka dálítið vandséð hvernig hann á að tryggja fæðuöryggi okkar, því að um 95% af öllum frönskum kartöflum sem Íslendingar láta ofan í sig eru innfluttar.

Nokkur innflutningsfyrirtæki létu á þennan toll reyna fyrir dómstólum. Stundum er furðulegustu hlutum haldið fram fyrir dómi. Í málflutningi sínum fyrir héraðsdómi þvertóku þannig lögmenn ríkisins fyrir að fröllutollurinn væri verndartollur. Hann væri þvert á móti lagður á til almennrar tekjuöflunar. Svo furðulegt sem það má teljast tók héraðsdómur undir það með ríkinu. Samt er saga ofurtolla á matvörur vel þekkt. Þegar þeir voru settir á árið 1995, sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu að með því væri „íslenskum landbúnaði tryggð nauðsynleg vernd á skýran hátt.“ 

Á kosningafundi Félags atvinnurekenda fyrir skemmstu mælti enginn frambjóðandi fröllutollinum bót eða gat rökstutt hann með nokkrum hætti. Flestir voru á því að það ætti bara að afnema hann. Framsókn og Vinstri græn gáfu þó loðnari svör en aðrir. Á nýju Alþingi virðist því munu verða meirihluti fyrir að afnema tollinn. Á sama tíma og enginn stjórnmálaflokkur treystir sér til að réttlæta tollheimtuna er ríkið með lögmenn á háum launum að undirbúa að verja þetta rugl fyrir Hæstarétti.

Stundum er íslenzk pólitík eins og beint úr bók eftir Kafka.

Nýjar fréttir

Innskráning