Kaffikrókurinn: Kemur til greina að taka til baka samkeppnisundanþágu fyrir afurðastöðvar í hvítu kjöti

07.11.2024

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir að það komi vel til greina að endurskoða undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum hvað varðar hvíta kjötið, þ.e. kjúklinga- og svínakjöt.

Í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum, sem er aðgengilegur á Spotify og YouTube, benti Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, Sigurði á að samkvæmt undanþágunni, sem samþykkt var sem breyting á búvörulögum síðastliðið vor, kæmi ekkert í veg fyrir að t.d. Stjörnugrís og Ali sameinuðust án eftirlits samkeppnisyfirvalda, en saman eru þessi fyrirtæki með mikinn meirihluta svínakjötsframleiðslu og svínakjötsinnflutnings í landinu. „Þetta eru ekki bændur á landsbyggðinni að berjast fyrir lífi sínu þetta eru bara tvær ríkar fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Ólafur og spurði hvort ráðherranum fyndist þetta í lagi.

Sigurður Ingi sagðist almennt styðja undanþágu landbúnaðar frá samkeppnislögum. „Hvort í þessari aðgerð hafi verið gengið of langt varðandi hvíta kjötið finnst mér bara sjálfsagt að skoða,“ sagði Sigurður Ingi. „Ef það er þannig að þurfi að leiðrétta lögin eða laga með tilliti til þessa finnst mér það algjörlega opið til skoðunar, vegna þess að fyrst og fremst var þessi aðgerð hugsuð – og þessi undanþága á Norðurlöndunum – til þess að fjölskyldubú, þá á Íslandi sauðfjárbú og nautakjötsframleiðsla fyrst og fremst, væru varin.“

„Þú ert að segja að þið hafið mögulega hlaupið á ykkur með hvíta kjötið?“ „Ég er bara að segja að ef það er þarna einhver galli á þessu, þá finnst mér persónulega sjálfsagt að skoða það.“

Frumvarpið um kílómetragjald endurskoðað – flutningskostnaður hækki ekki á næsta ári
Ólafur spurði Sigurð Inga út í frumvarp hans um breytingu á skattlagningu ökutækja, m.a. upptöku kílómetragjalds fyrir öll ökutæki, niðurfellingu olíugjalds og hækkun kolefnisgjalds. Ólafur benti á að félagsmenn FA hefðu reiknað út umtalsverðar hækkanir á rekstrarkostnaði vörudreifingarbifreiða, sem væru líklegar til að velta beint út í verðlagið og vinna gegn markmiðum um lækkun verðbólgu. Þá drægi frumvarpið eins og það var lagt fram mjög úr hvata til orkuskipta í vöruflutningum.

„Við erum tilbúin að hlusta á þessi sjónarmið,“ sagði Sigurður Ingi og boðar breytingar á frumvarpinu, „góðar tillögur“ sem komi til móts við gagnrýni atvinnulífsins á frumvarpið. „Með því að lengja í innleiðingunni getum við á næsta ári sagt að breytingin ein og séð muni ekki verða til þess að flutningskostnað. Hins vegar, ef við færum ekki þessa leið, þá yrðum við að hækka bensín- og dísilgjöld og þá yrði kostnaðarauki sem yrði kannski meiri en það sem þínir umbjóðendur hafa verið að kvarta yfir.“

Tilmæli dómsmálaráðherra um lögmæti netverslunar alvarlegri en bréfið til lögreglu
Ólafur og Sigurður Ingi ræddu áfengislöggjöfina og m.a. bréfasendingar ráðherrans til lögreglustjórans í Reykjavík vegna rannsóknar á netverslunum með áfengi. Sigurður Ingi þvertók fyrir að það hefði verið inngrip í lögreglurannsókn, erindið hefði eingöngu verið til upplýsingar um lögfræðiálit sem unnið hefði verið fyrir ráðuneytið og til ábendingar um að ÁTVR hefði kvartað undan rekstri netverslana. „Ég bara bendi á að það voru einhverjir dómsmálaráðherrar sem hins vegar gengu fram og sögðu opinberlega að þetta væri löglegt. Ég held að þau tilmæli til lögreglunnar séu talsvert alvarlegri en saklaust bréf fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á rekstri mikilvægrar stofnunar á Íslandi sem er að tapa peningum.“  

Ólafur benti á að það væri óumdeilt að íslenskir neytendur mættu kaupa áfengi af erlendum netverslunum. „Er ekki eitthvað stórkostlega mikið á skjön og í raun þvert á stefnu þíns flokks ef ekki má versla við innlend fyrirtæki?“ spurði hann. „Jú algjörlega, bara sammála því. Bara ef það er gert með löglegum hætti þá held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu,“ sagði fjármálaráðherrann. Ólafur spurði þá hvort hann væri á því að leyfa ætti innlenda netverslun með áfengi með skýrum hætti. „Það þarf bara fyrst og fremst að fara yfir þetta, er þetta gert með löglegum hætti í dag? Vilji menn breyta einhverju þarf það að vera umfjallað af Alþingi. Það er ekki hægt að breyta löggjöfinni, framkvæmdinni eða lýðheilsustefnu á Íslandi með því að einstök fyrirtæki túlki sjálf hvernig það er gert,“ sagði Sigurður Ingi.

Fjármálaráðherrann sagðist engu að síður taka undir að áfengislöggjöfin þyrfti endurskoðunar með. „Það gengur ekki upp [að breyta engu] þegar við horfum upp á hvað er að gerast,“ sagði Sigurður Ingi.

Góðar tillögur um fasteignaskattabremsu
Sigurður Ingi viðurkenndi að lítið hefði komið út úr endurskoðun á kerfi fasteignaskatta á fyrirtæki, sem hann boðaði síðast þegar hann mætti í Kaffikrókinn hjá FA, fyrir kosningarnar 2021. Ólafur rakti tillögur, sem starfshópur FA, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Húseigendafélagsins og fleiri aðila lagði fram í fyrra, um að setja m.a. eins konar skattabremsu á fasteignaskatta, þannig að þeir hækkuðu og lækkuðu innan tiltekinna marka þótt skattstofninn, fasteignamatið, sveiflaðist mikið. Sigurður Ingi sagðist hafa kynnt sér tillögurnar og fyndist þær góðar. Það væri hins vegar ekki gott að tekjur sveitarfélaga kæmu í vaxandi mæli frá innviðagjöldum, sem stuðluðu að hækkun íbúðaverðs. „Þannig að ég held að þarna sé eitthvað inni sem við eigum eftir að ræða og fasteignagjöldin og útfærsla þeirra er eitt af því,“ sagði Sigurður Ingi.

Ólafur og Sigurður Ingi ræddu ýmislegt fleira í Kaffikróknum, til dæmis hlutverk ríkisfjármálanna í stöðugleikanum, starfsmannamál ríkisins, hvort eðlilegt væri að ríkisstarfsmenn notuðu vildarpunkta frá flugfélögum í eigin þágu, útboðsmál og fleira. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að ofan og á YouTube og hlusta á hann á Spotify.

Þátturinn á Spotify

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024