Keppt við allt sem hreyfist

29.11.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2018.

„Mikilvægt er að mati ríkisins sem eiganda að öll ákvarðanataka stjórna og stjórnenda […] miði að því að efla eins og kostur er samkeppni á þeim sviðum sem það starfar við,“ segir í eigandastefnu fyrir fyrirtæki sem ríkið á hlut í. Þessa klausu virðist stjórn ríkisfyrirtækisins Íslandspósts ohf. hafa misskilið þannig að fyrirtækinu beri að keppa við allt sem hreyfist.

Þannig er nú hvert einasta pósthús í samkeppni við sjoppur, minjagripabúðir, leikfangaverzlanir og bóka- og ritfangabúðir með umfangsmikilli vörusölu. Pósturinn á prentsmiðju, fraktflutningafyrirtæki og hugbúnaðarfyrirtæki. Hann keppir við einkafyrirtæki í fjölpóstdreifingu, hraðflutningum og gagnageymslu. Hann hefur troðið sér inn á markaði fyrir sendla- og sendibílaþjónustu. Nú síðast hafa margir viðskiptavinir IKEA rekið upp stór augu þegar þeir fá vörur sem þeir hafa keypt á netinu sendar heim til sín í bíl frá ríkinu.

Félag atvinnurekenda hefur árum saman gagnrýnt samkeppnishætti Íslandspósts. Opinberar stofnanir hafa ekki getað svarað því með skýrum hætti hvort farið hafi verið að samkeppnislögum og póstlögum í rekstri fyrirtækisins, með því að tekjur af einkarétti Póstsins á bréfasendingum hafi ekki verið notaðar til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Um hið gagnstæða eru þó margar vísbendingar. Gjaldskrár samkeppnisrekstrar Íslandspósts hækka þannig miklu hægar en einkaréttargjaldskráin þótt kostnaðarliðir séu þeir sömu. Einkareknir keppinautar sem neyðast til að velta t.d. launa- og olíuhækkunum út í verðlag, hafa löngum furðað sig á að Pósturinn virðist ekki þurfa þess.

Nú þegar fyrirtæki sem hefur hagað sér svona stefnir í greiðsluþrot og biður um 1,5 milljarða af peningum skattgreiðenda til að bjarga sér, hefur FA lagt til að gerð verði óháð úttekt á rekstrinum. Afstaða stjórnenda Íslandspósts til þeirrar tillögu hlýtur að vera skýr. Ef þeir hafa hreina samvizku og ekkert að fela, fagna þeir slíkri úttekt.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning