„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 11. maí 2017.
„Umfangsmikið samráð var haft við stofnanir sem málið varðar á öllum stigum vinnunnar,“ segir í greinargerð frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi. Síðan fylgir talsvert ýtarleg lýsing á fundahöldum opinberra stofnana um hvernig málinu yrði bezt fyrir komið og hvaða stofnun væri nú sniðugast að hefði eftirlit með boðum og bönnum sem í frumvarpinu felast.
Umrætt frumvarp kveður á um að rafrettur, vara sem ætti að geta forðað mörgum frá bráðu heilsutjóni með því að hætta að reykja og gufa frekar, skuli lögð að jöfnu við reyktóbak og sömu hindranir lagðar á notkun hennar, sölu og markaðssetningu. Allt var þetta ákveðið án þess að spyrja fulltrúa neytenda eða fyrirtækja álits, þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér veigamikil inngrip í athafna- og atvinnufrelsi fólks og fyrirtækja. Þegar svo loksins var leitað eftir umsögnum atvinnulífsins um drög að rafrettufrumvarpinu var ekkert gert með þær áður en plaggið var lagt fyrir Alþingi.
Vinnubrögð af þessu tagi eru því miður alltof algeng þegar verið er að semja nýtt regluverk. Annað nýlegt dæmi er af furðulegu máli, þar sem umhverfisráðuneytið ákvað að gera í reglugerð þá kröfu til drykkjarvöruumbúða að á þeim sé strikamerkið lóðrétt en ekki lárétt. Enn hefur ekki verið útskýrt af hálfu ráðuneytisins hvernig sú krafa er til komin, en Félag atvinnurekenda skrifaði því erindi vegna málsins í lok marz. Ef fulltrúar atvinnulífsins hefðu verið spurðir, áður en reglugerðin var sett, hefðu fengizt þau svör að slík krafa myndi setja stóran hluta drykkjarvöruinnflutnings til Íslands í uppnám.
Embættismenn sem starfa við að setja atvinnulífinu reglur virðast stundum vera alveg úr tengslum við það samfélag sem á að fara eftir reglunum. Vandann mætti leysa með því að hafa gátlista með tveimur spurningum við samningu lagafrumvarpa og reglugerða: a) Hvaða áhrif hefur þessi regla á verzlun og viðskipti? b) Hvern get ég spurt sem kann svar við því?