Kína og Ísland nýti „Belti og braut“ til að byggja upp jarðhitavirkjanir í þriðju ríkjum

31.05.2019
Frummælendur á málþinginu. Frá vinstri: Jin Zhijan, Guðni Axelsson, Einar Rúnar Magnússon og Tingting Zheng.

Samstarf Kína og Íslands í orkumálum stendur á gömlum merg en hefur vaxið gífurlega á undanförnum árum og framtíðarmöguleikarnir eru miklir. Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, sem haldið var í tengslum við aðalfund ráðsins. Upptöku af málþinginu má sjá í spilaranum hér að neðan.

Byggi upp virkjanir í þriðju ríkjum
Jin Zhijan, sendiherra Kína á Íslandi, flutti ávarp í upphafi aðalfundarins og sagði að samstarf um jarðhitavæðingu hefði staðið lengi, allt frá 9. áratugnum er Kínverjar hófu að senda sérfræðinga til náms í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Nú væri þetta samstarf orðið ákveðinn miðpunktur í samskiptum ríkjanna. Vísaði sendiherrann þar meðal annars til samstarfs ríkisorkufyrirtækisins Sinopec og Arctic Green Energy um uppbyggingu jarðhitavirkjana, fjárfestingar Geely í Carbon Recycling International og kaupa Strætó á Yutong-rafmagnsstrætisvögnum.

Jin lagði til að ríkin myndu enn efla samstarf sitt í orkumálum. Hann hefur nýlega hvatt Ísland til þátttöku í hinu gríðarlega innviðaverkefni Kína, „Belti og braut.“ Í ræðu sinni hvatti hann jafnframt til þess að Ísland og Kína myndu nýta það verkefni til að byggja upp jarðhitavirkjanir í þriðju ríkjum.

Jin sendiherra tók djúpt í árinni varðandi viðskiptadeilur Kína og Bandaríkjanna.

Vilja ekki viðskiptastríð en berjast ef þarf
Sendiherrann vék að viðskiptadeilum Kína og Bandaríkjanna. „Það eru Bandaríkin sem hófu viðskiptadeilurnar, hleyptu af fyrsta skotinu með því að hækka tolla og hafa reglulega gripið til þess að setja hámarksþrýsting á Kína. Það sem Kína hefur gert hingað til er eingöngu í sjálfsvörn gagnvart ósanngjörnum aðgerðum Bandaríkjanna. Kína vill ekki viðskiptastríð, en það er ekki hrætt við slíkt stríð og mun berjast ef þörf er á. Með því værum við ekki eingöngu að verja lögmæt réttindi okkar og hagsmuni, heldur að standa vörð um fjölþjóðahyggju og fríverslunarkerfið,“ sagði Jin. Hann sagðist vonast til að hægt yrði að leysa deilurnar við Bandaríkin með viðræðum og samráði.

Miklir framtíðarmöguleikar
Guðni Axelsson, sviðsstjóri kennslu og þróunar hjá ÍSOR, fjallaði um jarðhitaauðlindina í Kína. Þar er fyrst og fremst nýttur lághiti í setlögum til húshitunar. Kína væri eitt fárra landa í heiminum þar sem slíkur jarðhiti væri nýttur. Nýtingin væri skammt á veg komin en færi hratt vaxandi. Árið 2015 hefði uppsett afl jarðvarmavirkjana verið 18.000 MW, samanborið við 2.000 MW á Íslandi.

Guðni sagði að framtíðarmöguleikar í samvinnu landanna á sviði jarðhitanýtingar væru miklir. Ísland gæti þannig veitt aðstoð við aukna nýtingu jarðhitakerfa á sprungusvæðum og jarðhita á miklu dýpi, 4-5 km undir yfirborðinu. Þá myndi Ísland halda áfram að þjálfa kínverska sérfræðinga, starfsmannaskipti væru einn kostur og margt fleira.

Nemendur Jarðhitaskólans í lykilhlutverki
Tingting Zheng, doktorsnemi við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Háskóla Íslands, fjallaði um mikilvægi Jarðhitaskólans í uppbyggingu jarðhitanýtingar í Kína. Samtals hafa 89 kínverskir sérfræðingar sótt nám við skólann. Hlutur kvenna fer vaxandi, en samtals 28% kínversku sérfræðinganna er konur. Fyrrverandi nemendur skólans hefðu leikið lykilhlutverk í stærstu jarðhitaverkefnunum í Kína.

Jónína Bjartmarz formaður ÍKV setti málþingið.

Heimsókn Jiang Zemin vendipunktur
Einar Rúnar Magnússon, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Arctic Green Energy, fjallaði um samstarf fyrirtækisins við Sinopec í Kína um uppbyggingu hitaveitna. Hann benti á að tekist hefði að draga verulega úr loftmengun í ýmsum kínverskum borgum sem hituðu nú hús með jarðhita í stað jarðefnaeldsneytis. Fyrirtækið starfar nú í 50 borgum og sýslum í Kína og er með verkefni á prjónunum í nágrannaríkinu Kasakstan. Einar sagði að það hefði verið ákveðinn vendipunktur í orkusamstarfi Íslands og Kína þegar Jiang Zemin, þáverandi forseti Kína, heillaðist af Nesjavallavirkjun í opinberri heimsókn árið 2002 og setti í framhaldinu stóraukinn kraft í uppbyggingu jarðhitavirkjana í Kína. Ætla mætti að starfsemin hefði nú þegar sparað 7,5 milljónir tonna af útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Einar Rúnar sagði að gífurlegir möguleikar væru í nýtingu jarðhita á heimsvísu, enda væri aðeins lítill hluti nýttur. Mikið væri af lághitasvæðum sem hentuðu til húshitunar þótt þau dygðu ekki til raforkuframleiðslu. fyrirtækið stefndi á áframhaldandi vöxt í Kína og að nota samstarfsmódelið sem hefur verið þróað þar í fleiri ríkjum. Meðal annars væri horft til þess að nýta jarðhita til kælingar með varmaskiptum, t.d. í Suðausturasíulöndum.

Glærur Guðna
Glærur Tingting
Glærur Einars Rúnars

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning