Kjöt frá ESB er öruggur matur: Bændur og afurðastöðvar með 34% tollkvótans

13.01.2020
Danskt og þýskt svínakjöt, flutt inn af fyrirtækjum í Hópi um örugg matvæli.

Bændur og afurðastöðvar í íslenskum landbúnaði flytja inn um 34% tollkvóta fyrir kjöt, sem er í boði samkvæmt tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins á fyrri hluta ársins. Samkvæmt niðurstöðum útboðs á tollkvóta fyrir janúar til júní 2020 fá aðilar í íslenskum landbúnaði í sinn hlut samtals 519,3 tonna tollkvóta fyrir kjötvörur frá ESB, af 1.526,5 tonnum sem voru í boði. Þessi fyrirtæki flytja inn 81% tollkvótans fyrir svínakjöt og helming kvótans fyrir alifuglakjöt.

Þetta er hlutfallslega heldur minni innflutningur þessara aðila en á síðasta ári, en þá fengu sömu aðilar í sinn hlut 44,2% af ESB-tollkvótanum fyrir kjöt.

Eins og sjá má í töflunni hér að neðan er Mata langumsvifamesti innflytjandinn með 245,5 tonn af tollkvóta eða tæplega helming þess sem bændur og afurðastöðvar flytja inn. Mata er systurfélag Síldar og fisks, eins stærsta svínaræktanda landsins, sem selur vörur sínar undir merkinu Ali, og Matfugls, sem er umsvifamikill kjúklingaræktandi. Stjörnugrís (svínaræktandi), Reykjagarður (Holta, alifuglaræktandi), Sláturfélag Suðurlands og Kjarnafæði buðu einnig í tollkvóta og fengu.

Fyrirtækin sem um ræðir eiga öll beint eða óbeint hlut að Hópi um örugg matvæli sem varar við innflutningi búvara á vef sínum: „Óhindraður innflutningur á kjöti, hráum eggjum, ostum og öðrum mjólkurvörum rýfur verndina sem lega landsins og íslenskir búskaparhættir veita okkur og skapar raunverulega hættu fyrir almenning.“ Þess má geta að Mjólkursamsalan, sem fékk í sinn hlut tollkvóta til að flytja inn 23 tonn af osti, á einnig aðild að hópnum.

Góðar fréttir
„Þessi áframhaldandi innflutningur bænda og afurðastöðva á kjöti frá ESB í stórum stíl eru góðar fréttir,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Fyrirtækin sem standa að Hópi um örugg matvæli sýna í verki að þau telja búvörur sem fluttar eru inn frá ríkjum Evrópusambandsins öruggan mat, þótt þau segi annað á vefnum sínum. Enda lúta þessar vörur heilbrigðiseftirliti samkvæmt sömu reglum og gilda á Íslandi.“

Nýjar fréttir

Innskráning