Kókoshnetubændurnir fyrir vestan

07.05.2025

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 7. maí 2025

Eina jákvæða hlið má sjá á vitfirringunni í Hvíta húsinu í Washington. Hún hefur sýnt skýrlega hversu lítið vit er í tollum og öðrum hömlum á alþjóðaviðskipti. Hlutabréfaverð hefur hrunið, aðfangakeðjur flækzt og verðbólguvæntingar rokið upp vegna ákvarðana Bandaríkjaforseta. Á meðal hagfræðinga, sem hafa tjáð sig um stefnu hans, er nánast algjör samhljómur um að tollar geri á endanum alla fátækari og ekkert ríki muni græða á tollastríði.

Samt heyrast enn þær raddir í íslenzkri þjóðmálaumræðu að tollar séu frábærir og ráð að hækka þá til að vernda innlenda matvælaframleiðslu. Ef eitthvað er hægt að læra af viðbrögðum við tollahækkunum Trumps er það þvert á móti að leita ætti allra annarra leiða til að styrkja innlenda matvælaframleiðslu áður en skoðað er að hækka tolla.

Fyrir áratug felldi Alþingi niður einhliða alla tolla á vörum öðrum en matvörum og blómum, einmitt með þeim rökum að þeir sköðuðu viðskipti, drægju úr samkeppni og yllu samfélaginu tjóni. Sumum tollum var þó viðhaldið, með þeim rökum að vernda þyrfti innlenda matvælaframleiðslu. En reyndin er sú að margir þeirra vernda enga innlenda framleiðslu.

Þannig er engin framleiðsla á frönskum kartöflum á Íslandi, en 46% tollur. Tollar á kartöflusnakki voru felldir niður en eftir stendur t.d. 7,5% tollur á maíssnakki. Er hann til að vernda íslenzka maísbændur? Tollar á ís úr sumum tegundum jurtamjólkur voru felldir niður, en ekki á t.d. ís úr kókosmjólk, sem ber 30% verðtoll og 110 kr. magntoll á kíló. Ekki eru kókoshnetubændurnir margir. Ræktendur sætkartaflna munu vandfundnir í sveitum landsins, en þær bera engu að síður 30% toll. Á Íslandi eru ræktaðar örfáar tegundir blóma, en miklu fleiri bera háa tolla.

Stjórnvöld eiga að fella niður tolla af þessu tagi. Þeir gera ekkert nema ógagn og bitna fyrst og fremst á neytendum.

Nýjar fréttir

Innskráning