Könnun FA: 86% félagsmanna ánægðir með starf félagsins

06.02.2022
Smelltu á myndina til að stækka hana.

Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi atvinnurekenda, eða 86%, lýsir ánægju sinni með þjónustu og starf félagsins. Þetta er á meðal niðurstaðna í árlegri könnun FA á meðal félagsmanna, sem gerð var í síðustu viku.

Er spurt var um afstöðu til fullyrðingarinnar „ég er ánægð(ur) með starf FA í heild“ sögðust 44% mjög sammála og 42% sammála, samtals 86%.

Sú þjónusta félagsins sem reyndist mest notuð og mest ánægja mældist jafnframt með, er upplýsingaþjónusta vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sóttvarna, stuðningsúrræða og fleiri atriða sem tengjast faraldrinum. FA mótaði í upphafi faraldurs þá stefnu að standa þétt við bakið á félagsmönnum með tíðri upplýsingamiðlun og voru á árinu 2021 sendir út 72 upplýsingapóstar um heimsfaraldurinn til félagsmanna. Alls sögðust 95% svarenda hafa nýtt sér þessa þjónustu og af þeim sögðust 79% mjög ánægðir með hana og 15% til viðbótar ánægðir, samtals 94%. Í svari við opinni spurningu um hvað FA hefði gert vel á árinu, nefndu langflestir upplýsingapóstana um faraldurinn.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Um og yfir 90% ánægja með hagsmunagæslu og lögfræðiþjónustu
Næstmest notaða þjónusta félagsins var hagsmunagæsla gagnvart stjórnvöldum, sem 69% sögðust hafa nýtt sér. Sömuleiðis var mikil ánægja með þessa þjónustu; 65% sögðust mjög ánægðir og 27% ánægðir, samtals 92%.

Þá sögðust 67% hafa nýtt sér lögfræðiþjónustu FA. Af þeim sögðust 58% mjög ánægðir og 28% ánægðir, eða 86% samtals.

Meirihluti félagsfunda FA á árinu var haldinn með fjarfundabúnaði vegna samkomutakmarkana. Sögðust 60% svarenda hafa nýtt sér félagsfundina og voru 43% mjög ánægðir með þá og 37% ánægðir, samtals 80%.

Könnunin var gerð dagana 31. janúar til 4. febrúar. Hún var send í tölvupósti til 163 félagsmanna með beina félagsaðild. Af þeim svöruðu 57, eða 35%. Svarhlutfall í könnunum undanfarinna ára hefur verið á bilinu 31% til 64%. Svör í könnuninni verða ekki rakin til einstaklinga eða einstakra fyrirtækja.

Nýjar fréttir

Innskráning