Könnun FA: Félagsmenn ánægðir með þjónustuna

25.01.2018

Félagsmenn eru almennt ánægðir með þjónustu Félags atvinnurekenda, samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar félagsins. Samanlagt segjast 72% félagsmanna ánægðir eða mjög ánægðir með starf félagsins. Í fyrra sögðust samanlagt 84% ánægðir eða mjög ánægðir með starfið.

Könnuninni var í ár breytt mikið frá því sem hefur verið fyrri ár til að fá betri mælingu á því bæði hversu mikið félagsmenn nota þjónustu félagsins og hversu ánægðir þeir eru með hana. Samanburður á milli ára er því í sumum tilvikum erfiður.

Könnunin var send til forsvarsmanna 153 aðildarfyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 87, en það er um 56% svörun. Undanfarin ár hefur svarhlutfall í könnuninni verið á bilinu 31 til 64%.

Sú þjónusta FA sem flestir nýta sér eru félagsfundirnir, en 60% svarenda segjast sækja þá eða fylgjast með þeim. Allir félagsfundir FA eru nú sendir beint út á Facebook.

Sú þjónusta sem mest ánægja er með er hins vegar lögfræðiþjónusta félagsins, en tæpur helmingur þeirra sem nota hana segist mjög ánægður með þjónustuna og 41% viðbótar segist ánægður með lögfræðiþjónustuna. Mikill meirihluti félagsmanna, sem hafa sótt sér aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum, sagðist sömuleiðis ánægður með þá þjónustu.

Spurt var hvort félagsmenn teldu félagið sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn og sögðust 82% sammála eða mjög sammála því, sem er heldur hærra hlutfall en í síðustu könnun. Sama á við um afstöðu félagsmanna til ímyndar FA; 81% telur hana jákvæða.

Líkt og í fyrra var spurt hvert ætti að verða helsta baráttumál FA á árinu. Það sem stóð upp úr var baráttan fyrir lækkun tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda fyrirtækja.

Spurt var um ýmsa þætti í þjónustu, málefnabaráttu og upplýsingamiðlun FA og verða niðurstöðurnar nýttar til að bæta þjónustuna og efla starf félagsins.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning