Könnun FA: Félagsmenn ánægðir með þjónustuna

04.02.2020

Félagsmenn í Félagi atvinnurekenda eru almennt ánægðir með þá þjónustu sem félagið veitir, samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar félagsins á meðal aðildarfyrirtækja. Af þeim sem tóku afstöðu til fullyrðingarinnar „Ég er ánægð(ur) með starf FA í heild“ sögðust 74% sammála eða mjög sammála, en undanfarin ár hefur þetta hlutfall legið á bilinu 74-84%. Síðustu tvö ár ár hefur þeim fjölgað sem segjast „mjög sammála“ og eru þeir um þriðjungur svarenda.

Spurt var um einstaka þætti í þjónustu félagsins. Sú þjónusta sem svarendur segjast hafa notað mest eru félagsfundirnir. Þeir voru óvenjulega vel sóttir á síðastliðnu ári, ekki síst fundir sem haldnir voru í aðdraganda og til útskýringar á kjarasamningunum sem gerðir voru síðastliðið vor. Af þeim 73% félagsmanna sem sóttu félagsfundina segjast 79% ánægðir eða mjög ánægðir. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var út í þjónustu vegna kjarasamninga; þar sögðust 80% ánægðir eða mjög ánægðir.

Mest ánægja með lögfræðiþjónustuna
Eins og fyrri ár er lögfræðiþjónusta félagsins sá þjónustuþáttur sem flestir lýsa ánægju með, en tveir þriðjuhlutar svarenda sögðust hafa leitað til lögfræðinga félagsins. 47% þeirra sem nýttu sér lögfræðiþjónustuna sögðust mjög ánægðir með hana og 38% ánægðir, eða samtals 85%. Svipað hlutfall sagðist hafa nýtt sér aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og sögðust samtals 70% ánægð með þá þjónustu.

Könnun FA var gerð dagana 16.-23. janúar sl. Könnunin var send í tölvupósti til 157 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 54 eða 34,4%. Undanfarin ár hefur svarhlutfallið legið á bilinu 31-64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

 

Nýjar fréttir

Innskráning