Könnun FA: Mest ánægja með lögfræðiþjónustuna

01.02.2019
Smelltu á myndina til að stækka hana

Félagsmenn Félags atvinnurekenda eru almennt ánægðir með þjónustu félagsins en nota hana mismikið, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar FA meðal félagsmanna. Sú þjónusta félagsins sem flestir nota, eða 68%, er lögfræðiþjónustan. Jafnframt er mest ánægja með hana af þjónustuþáttum félagsins; 38% notenda þjónustunnar segjast mjög ánægðir og 46% ánægðir.

65% félagsmanna sækja eða fylgjast með félagsfundum, en allir félagsfundir FA eru nú í beinni útsendingu á Facebook. 12% segjast mjög ánægðir með félagsfundina og 60% ánægðir. Þá höfðu 54% svarenda fengið aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og sögðust 40% mjög ánægðir með þjónustuna og 37% ánægðir.

Fleiri nýti sér Starfsmenntasjóð verslunarinnar
Af þeim 32% sem sögðust nýta sér Starfsmenntasjóð verslunarinnar sögðust 10% mjög ánægðir með þjónustuna og 32% ánægðir. Lágt hlutfall félagsmanna sem nýta Starfsmenntasjóðinn er FA áhyggjuefni, enda hafa þeir lagt peninga í hann sem þarf að koma í vinnu fyrir fyrirtækin. FA hefur á undanförnum mánuðum unnið að könnun á þörfum félagsmanna fyrir menntun, fræðslu og þjálfun og er nú verið að stilla upp fjölbreyttu framboði fræðslu og námskeiða hjá menntastofnunum og -fyrirtækjum, sem verður styrkhæft hjá sjóðnum.

Alls sögðust 78% svarenda ánægðir eða mjög ánægðir með starf FA. Það er nokkru hærra hlutfall en í fyrra. Þá sögðust samtals 84% sammála eða mjög sammála því að ímynd félagsins væri jákvæð. Það er svipuð útkoma og í síðustu könnun.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

FA gerir árlega könnun meðal félagsmanna. Að þessu sinni var könnunin gerð dagana 24. til 31. janúar. Af 161 fyrirtæki með beina félagsaðild svöruðu 73, eða 45%. Svörunin í könnuninni undanfarin ár hefur verið á bilinu 31-64%. Könnunin er netkönnun, send félagsmönnum í tölvupósti. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

 

Nýjar fréttir

Innskráning