Könnun verðlagseftirlits ASÍ gefur skakka mynd af verðlækkunum vegna niðurfellingar vörugjalda

08.05.2015

RaftækiAlþýðusamband Íslands (ASÍ) birti í gær niðurstöðu könnunar verðlagseftirlits ASÍ á verðlækkunum heimilistækja. Þar er því haldið fram að verðlækkanir á slíkum tækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts séu mun minni en gera hafi mátt ráð fyrir.

Verðlagskannanir skipta gríðarlega miklu máli enda veita þær verslunum aðhald, eru neytendum til upplýsinga og eru til þess fallnar að efla samkeppni. Vegna þessa skiptir höfuðmáli að verðlagskannanir séu vel úr garði gerðar og gefi rétta mynd
af verðlagi og verðlækkunum.

Í frétt ASÍ er tekið fram að kannanir verðlagseftirlitsins sem niðurstöðurnar byggjast á hafi annars vegar verið gerðar í byrjun október 2014 og hins vegar í apríl 2015. Raftækjaverslanir lækkuðu hins vegar margar hverjar verð um miðjan septembermánuð í samræmi við fyrirhugaða niðurfellingu vörugjalda. Ormsson og Samsung-setrið riðu á vaðið og lækkuðu verð þann 16. september og fylgdu aðrar verslanir í kjölfarið. Þar sem fyrri könnun ASÍ var gerð í október er ljóst að hið upprunalega verð, þ.e. verð fyrir lækkun, kom ekki til skoðunar hjá ASÍ. Könnun ASÍ tók þannig til verðs á heimilistækjum eftir að afsláttur var veittur í september en telja verður í hæsta máta óeðlilegt að ætlast til þess af verslunum að endurtaka þá verðlækkun við afnám vörugjaldanna um áramótin. Markmið nefndrar könnunar, að kanna áhrif niðurfellingar vörugjalda á verðlag tiltekinna vara, getur ekki náðst ef rétt verð er ekki lagt til grundvallar, þ.e. verð fyrir lækkun vegna niðurfellingar vörugjalda annars vegar og verð eftir lækkun hins vegar.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telur Félag atvinnurekenda ríka ástæðu til að gera athugasemd við framkvæmd verðlagseftirlits ASÍ á verðkönnunum vegna niðurfellingar vörugjalda. Þá er gagnrýnivert að ekki er tilgreint með skýrum hætti hvaða vörutegundir voru skoðaðar auk þess sem einungis er vísað almennt til „vara“ í töflu sem sýnir útreikning á verðbreytingum. Þessi atriði eru til þess fallin að draga úr áreiðanleika könnunarinnar en Félag atvinnurekenda ítrekar mikilvægi þess að rétt sé staðið að verðlagskönnunum. Það er öllum til góðs, neytendum sem og atvinnurekendum.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning