Krafa í Evrópureglugerð um að tilteknar einnota plastvörur verði merktar á íslensku er líkleg til að valda verðhækkunum á tíðavörum, blautklútum og drykkjarmálum. Í tilviki tíðavara gæti verðhækkun valdið því að verðlagsáhrif lækkunar virðisaukaskatts á tíðavörum úr 24% í 11%, sem samþykkt var á Alþingi 2019, þurrkist út. Félag atvinnurekenda bendir í umsögn um reglugerðardrög umhverfisráðherra á að breytingin feli í sér inngrip í atvinnufrelsi og þurfi því að eiga sér stað með lagasetningu, en ekki reglugerð ráðherra.
ESB-reglur um merkingar á opinberu tungumáli viðkomandi ríkis
Reglugerðardrög umhverfisráðherra kveða á um að lokið verði við að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um ýmsar ráðstafanir til að draga úr plastmengun, svo og ákvæði svokallaðrar framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnar ESB sem gefur nákvæma forskrift um hvernig merkingar á einnota plastvörum skuli líta út. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að merkingarnar séu á opinberu tungumáli eða tungumálum viðkomandi ríkis. Reglurnar, sem tóku gildi innan ESB 2021, gera þannig til dæmis ráð fyrir að á Möltu séu merkingar bæði á heimsmálinu ensku og á maltnesku, sem 570 þúsund manns tala. Bæði málin eru opinbert tungumál á Möltu.
Reglurnar gera sömuleiðis ráð fyrir að ekki megi koma merkingunni fyrir á límmiða, heldur verður hún að vera forprentuð á umbúðir vörunnar eða, í tilviki drykkjarmála, á hvert einasta mál.
Gengið miklu lengra en við merkingar á matvælum
FA bendir á að krafan um að merking skuli vera á opinberu tungumáli viðkomandi ríkis komi illa niður á örmarkaði eins og Íslandi, en opinbert tungumál Íslands, íslenska, er talað af um 380.000 manns, sem er 0,08% af heildarmannfjölda á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðið gengur miklu lengra en kröfur til merkinga á matvælum á EES, en sú reglugerð kveður á um að „lögboðnar matvælaupplýsingar [skuli] birtar á tungumáli sem er auðskiljanlegt fyrir neytendur í þeim aðildarríkjum þar sem tiltekin matvæli eru markaðssett.“ Í samræmi við það kveða íslenskar landsreglur á um að upplýsingar um matvæli á íslenskum markaði skuli vera á „íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.“ FA hefur ekki fundið neinn rökstuðning fyrir því að gera meiri kröfur hvað varðar einnota plastvörur og segist ekki koma auga á hvaða markmiðum löggjafar gegn plastmengun sé náð með þeim.
Kostnaðarauki hjá framleiðendum
Vörurnar sem um ræðir eru tíðavörur, blautklútar, tóbaksvörur með plastsíum og drykkjarmál sem innihalda plast. Gangi krafan um merkingar á íslensku eftir, munu innflytjendur umræddra vara þurfa að leita eftir því við framleiðendur að þeir bæti merkingum á íslensku á umbúðir varanna. Hægt er að leysa málið hvað tóbaksvörur varðar vegna þess að þegar eru í gildi kröfur um að þær séu með varúðarmerkingum á íslensku og breyting á umbúðum vegna krafna um nýjar viðvörunarmerkingar stendur fyrir dyrum. Hvað hinar vörurnar; tíðavörur, blautklúta og drykkjarmál; varðar, hafa félagsmenn FA sem flytja þær inn skoðað málin hjá erlendum birgjum. Þar fást ýmist þau svör að breyting á umbúðum komi ekki til greina, eða þá að verði farið í slíka breytingu verði íslenski markaðurinn látinn bera af henni allan kostnaðinn. Í mörgum tilvikum hafa birgjar þegar breytt umbúðum til samræmis við reglugerð (ESB) nr. 2020/2151, en hún tók gildi 3. júlí 2021. Þeir segja margir hverjir ekki koma til greina að fara í endurhönnun umbúða til að mæta þörfum 380.000 manna markaðar.
Dregur úr samkeppni
FA bendir á tvenns konar afleiðingar af því að breytingin taki gildi. Í fyrsta lagi muni draga úr samkeppni á íslenska dagvörumarkaðnum hvað þessar vörur varðar, annars vegar vegna þess að birgjar eru ekki reiðubúnir að breyta umbúðum fyrir íslenska örmarkaðinn og hins vegar vegna þess að breytingin lokar í raun fyrir samhliða innflutning á vörunum sem um ræðir. Samhliða innflutningur, þ.e. innflutningur viðurkenndra vörumerkja framhjá umboðsaðilum þeirra hérlendis, er mikilvægur ávinningur EES-samningsins og hefur stuðlað að aukinni samkeppni hér á landi. Reynslan frá Möltu sýnir að samhliða innflutningur hefur stöðvast og birgjum fækkað, sem dregur úr því vöruúrvali sem neytendum stendur til boða.
Hækkun bitnar á konum og barnafjölskyldum
Í öðru lagi mun breytingin stuðla að því að umræddar vörur hækki í verði, á sama tíma og stjórnvöld og atvinnulíf reyna að ná tökum á þrálátri verðbólgu sem meðal annars orsakast af erlendum kostnaðarhækkunum. „Í tilviki tíðavara er raunveruleg hætta á að breytingin myndi hafa af konum, sem nota þær, stóran hluta lækkunar virðisaukaskatts á tíðavörum sem Alþingi samþykkti 2019 með umtalsverðum lúðrablæstri. Markmið þeirrar lagabreytingar var að bæta lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinslætisvara. Sú breyting, sem hér er til umræðu, gæti þýtt að í tilviki ódýrari pakkninga, t.d. 14 stykkja dömubindapakka sem kostar 189 krónur, væri lækkun bleika skattsins svokallaða farin forgörðum, en skatturinn var lækkaður úr 24% í 11%,“ segir í umsögn FA.
„Í tilviki blautklúta myndi verðhækkunin fyrst og fremst bitna á barnafjölskyldum með smábörn. Þar er að sjálfsögðu sama staða uppi; hærri kostnaður vegna endurmerkinga umbúða leggst þyngra á ódýrari vörur, sem efnaminni neytendur eru líklegir til að kaupa.“
Ísland búið að missa af lestinni
FA bendir á að draga hefði mátt úr neikvæðum áhrifum reglnanna, hefðu íslensk stjórnvöld strax í upphafi (2020) gert innflytjendum og samtökum þeirra viðvart um breytinguna þannig að íslensk innflutningsfyrirtæki hefðu getað farið fram á við birgja sína að þeir tækju tillit til íslenska örmarkaðarins við endurhönnun á umbúðum. Í íslenskum verslunum má nú finna umræddar vörur með merkingum til samræmis við áðurnefnda reglugerð ESB, með áletrunum á allt að 25 tungumálum, þar á meðal á norsku – en skiljanlega ekki á örtungumálinu íslensku. „Ísland er í raun búið að missa af lestinni, þar sem framleiðendur hafa þegar lagt í ærinn kostnað við endurhönnun og -prentun umbúða og eru skiljanlega ekki spenntir fyrir því að endurtaka leikinn, nema þá að íslenzki markaðurinn beri allan kostnaðinn,“ segir í umsögn FA.