Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu 12. september.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, skrifar langan pistil um lambakjöt í laugardagsblað Morgunblaðsins og segir þar meðal annars: „Ef framleiðslan verður minnkuð um 20% líkt og ríkisstjórnin virðist stefna að verður augljóslega enn frekari vöntun á þessum vörum [lærum og hryggjum] á næsta ári. Mun þá koma fram krafa frá Félagi atvinnurekenda um að fá að flytja inn lambakjöt í stórum stíl?
Í þessari málsgrein gætir misskilnings um það hvernig frjáls markaður virkar. Ef einhverja vöru vantar á markað og eftirspurn neytenda er ekki fullnægt setur Félag atvinnurekenda ekki fram neina kröfu um að „fá“ að flytja hana inn. Matvælainnflytjendur svara einfaldlega eftirspurninni og taka sínar ákvarðanir um innflutning.
Félag atvinnurekenda er hins vegar líklegt til að gera þá kröfu á hendur stjórnvöldum að þau torveldi ekki þann innflutning með ósanngjörnum viðskiptahindrunum. Í tilviki lambakjöts myndi FA væntanlega fara fram á að leyft yrði að flytja það inn ferskt frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ef staðan væri sú að innanlandsframleiðsla fullnægði ekki eftirspurn, myndi FA líka fara fram á að landbúnaðarráðherra sinnti þeirri skyldu sinni samkvæmt búvörulögum að gefa út opinn tollkvóta á lægri tollum til þess að innflutningurinn yrði á viðráðanlegu verði fyrir neytendur, en ekki lagðir á hann hinir venjulegu ofurtollar.
Stuðningur sé ekki bundinn við framleiðslu
FA er þeirrar skoðunar að framleiðsla og sala á lambakjöti, rétt eins og öðrum matvörum, eigi að lúta lögmálum markaðarins. Offramleiðsla eins og sú sem búvörusamningar hafa stuðlað að, á ekki að vera vandamál skattgreiðenda til framtíðar þótt FA telji nauðsynlegt að framlag komi úr ríkissjóði til að mæta núverandi vanda sauðfjárbænda. Til lengri tíma þarf hins vegar að búa svo um hnúta að stuðningur við bændur sé ekki bundinn við framleiðslu ákveðinna vara.
FA hefur lýst stuðningi við tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem gera ráð fyrir að styrkur skattgreiðenda við bændur færist úr sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi. Þannig skipti ríkið sér ekki af því hvað bændur framleiði, heldur hvetji til ræktunar lands. Á móti komi stóraukinn fjárfestingarstuðningur sem auki við nýsköpun og nýliðun og auknir styrkir til lífrænnar ræktunar. Gera þarf slíkar breytingar á núverandi búvörusamningum.
Afturhvarf til hafta eða meira frelsi?
Framlag Gunnars Braga til umræðunnar um framtíð landbúnaðarins er að boða afturhvarf til hafta og ríkisafskipta. Hann boðar í grein sinni frumvarp um „sveiflujöfnun“ sem felur í sér að landbúnaðarráðherrann stýri framboðinu á markaðnum, væntanlega ýmist með útflutningsbanni eða útflutningsskyldu, og undanþágu frá samkeppnislögum fyrir kjötiðnaðinn, sambærilega þeirri sem mjólkuriðnaðurinn nýtur nú en núverandi landbúnaðarráðherra vill afnema.
Það sem Félag atvinnurekenda gerir hins vegar fyrst og fremst kröfu um, er að vindar viðskiptafrelsis og samkeppni fái í vaxandi mæli að leika um landbúnaðinn. Það hefur gefizt vel í öðrum greinum og ekki er nokkur ástæða til að ætla að önnur hagfræðilögmál gildi um landbúnaðinn.