Kynningarfundur um samning við FLM 19. september

11.09.2018
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, og Gunnar Páll Pálsson, formaður FLM, takast í hendur eftir undirritun samningsins.

Félag atvinnurekenda boðar til almenns félagsfundar kl. 10 miðvikudaginn 19. september til að kynna nýundirritaðan kjarasamning við Félag lykilmanna. Fundurinn fer fram í húsnæði félagsins í Húsi verslunarinnar, 9. hæð.

Samkvæmt lögum FA skulu allir kjarasamningar gerðir með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins. Lögin kveða jafnframt á um að samþykktan samning skuli „kynna á almennum félagsfundi eins fljótt og unnt er.“ Félagsmönnum í FA, sem hafa félagsmenn FLM í vinnu, voru send drög að samningi félaganna er viðræður um gerð hans voru langt komnar og bárust athugasemdir sem tekið var tillit til við lokagerð samningsins.

Á fundinum verður farið yfir efnisatriði samningsins og praktíska þýðingu fyrir félagsmenn FA, sem hafa félagsmenn FLM í vinnu.

Samningur FLM og FA, sem undirritaður var 5. september, er um margt sambærilegur við gildandi samning FA og Félags lyfjafræðinga að því leyti að hann er ekki gerður til ákveðins tíma og inniheldur ekki sérstakan launalið, heldur er gengið út frá því að félagsmenn FLM séu stjórnendur og sérfræðingar sem semja á einstaklingsgrundvelli um markaðslaun. Samningurinn kveður fyrst og fremst á um ýmis réttindamál á borð við ráðningarsamninga, starfsmannaviðtöl, orlof, veikindarétt, tryggingar og fleira slíkt.

Skráning á fundinn hér að neðan.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning