Kysst á vöndinn

23.01.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 23. janúar 2020.

Um áramót hækkuðu áfengisgjöld um 2,5%. Það er bara til að halda í við verðlag, segir ríkisstjórnin. Ekkert til að æsa sig yfir. Þá gleymist reyndar að yfir lengri tíma hafa áfengisgjöldin hækkað mjög verulega umfram verðlag. Raunar svo mjög að Ísland innheimtir hæstu áfengisskatta í Evrópu og líkast til í hinum vestræna heimi. 

Samkvæmt tölum sem Félag atvinnurekenda tók saman fær ríkið í sinn hlut með áfengisgjaldi, virðisaukaskatti, álagningu ÁTVR og skilagjaldi, um 60% af verði bjórflösku, um 70% af verði léttvínsflösku og um 90% af verði vodkaflösku. 

Víða í Evrópu eru innheimtir áfengisskattar sem eru kannski svona einn tíundi af því sem íslenzka ríkið telur við hæfi. Í mörgum löndum ber léttvín ekkert áfengisgjald, eingöngu virðisaukaskatt. Ef stjórnmálamönnum, til dæmis í Frakklandi eða á Ítalíu, dytti í hug að hækka áfengisskatta upp í þó ekki væri nema kannski helminginn af íslenzku sköttunum, yrðu þessi þjóðfélög óstarfhæf dögum saman vegna fjöldamótmæla. Hér segja fæstir nokkurn skapaðan hlut við skattpíningunni. Við erum vön þessu – kyssum á vöndinn.

En eru háir áfengisskattar ekki bara hin bezta forvörn? Jafnvel þótt við værum sammála því  hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að skattpína neytendur þessarar neyzluvöru. Ef við lítum á stjórnlyndustu löndin í Evrópusambandinu, þar sem lýðheilsu- og forvarnarök eru líka notuð fyrir háum áfengissköttum, er skatturinn á léttvín tæplega tvöfalt hærri hér en í Finnlandi og nærri þrefalt hærri en í Svíþjóð.

Sumir stjórnmálamenn segjast vilja styðja við rekstur smærri áfengisframleiðenda. Það yrði líklega bezt gert með því að vinda ofan af kerfi, þar sem þarf að greiða 35-70% af verði vörunnar fyrirfram í skatt til ríkisins áður en nokkrar tekjur eru komnar í kassann. Er einhver til í að flytja frumvarp um það?

Nýjar fréttir

Innskráning