Laða fyrirtækin inn í borgina frekar en að ýta þeim út

03.05.2022
Ólafur ræðir stefnu Framsóknarmanna við Einar í Kaffikróknum hjá FA.

„Fyrirtæki eru að leita annað. Stórfyrirtæki sem vilja koma hingað og reisa stórt atvinnuhúsnæði upp á þúsundir fermetra, fá ekki svör hjá borginni af því að það eru ekki lóðir í boði. Við sjáum fyrirtæki eins og Icelandair sem er að flytja úr borginni. Þetta er allt röng þróun sem við þurfum að snúa við. Ef við horfum á þetta úr þrjátíu þúsund fetum þá vil ég að Reykjavík sé höfuðborg atvinnurekstrar á Íslandi. Það er hægt að snúa þessu við með því að laða fyrirtækin inn í borgina fremur en að ýta þeim út,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Einar er gestur í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Einar segir í samtali við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA að bjóða þurfi upp á atvinnulóðir í bland við íbúðabyggð. Þá þurfi að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði. Reykjavík innheimtir nú 1,6% af fasteignamati í skatt en Hafnarfjörður 1,4%. „Við getum verið einhvers staðar þarna á milli,“ segir hann.

Erlendir sérfræðingar geri stjórnkerfisúttekt
Hann gagnrýnir stjórnsýslu borgarinnar, sem hann segir að sé vel mönnuð en alltof seinvirk. „Ég vil ekki tala borgina niður en við verðum að horfast í augu við að sögurnar sem við heyrum af samskiptum fólks við stjórnsýsluna eru ótrúlegar,“ segir Einar og nefnir sem dæmi að símatími Heilbrigðiseftirlitsins sé hálftími á dag. Einar vill fá erlenda aðila til að gera úttekt á stjórnkerfi borgarinnar og bera saman við þær borgir sem best gera.

Sveitarfélögin séu ekki leiðandi í launaþróun
Einar lýsir sig algerlega ósammála þeirri þróun að sveitarfélögin taki forystu í launakostnaðarhækkunum á vinnumarkaðnum, meðal annars með ríflegri vinnutímastyttingu en á almenna vinnumarkaðnum. „Ég held að flestir séu sammála um að atvinnulífið á að koma á undan. Við verðum að vita hver er raunveruleg geta efnahagskerfisins til að borga laun. Allt er þetta í samhengi, eitt stórt dýnamískt kerfi. Það gengur ekki að við séum að spenna væntingar umfram getu.“

Tvær þjóðir í borginni
Í samhengi við umræðuna um skipulagsmál segir Einar að hann upplifi það þannig að orðnar séu til tvær þjóðir í borginni. „Það eru þeir sem eru hluti af nýju Reykjavík sem þessi meirihluti hefur lagt áherslu á að byggja vestan Elliðaáa og svo eru það úthverfin. Við í Framsókn höfum í huga að úthverfin eru líka Reykjavík. Við erum ekki nógu ánægð og stolt að búa í Reykjavík. Það vantar betri stemningu í borgina.“

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning