Lagabreytingar of veikar til að tryggja ný vinnubrögð

01.09.2016
Undirritun-buvorusamninga
Frá undirritun búvörusamninga síðastliðinn vetur. Mynd: Atvinnuvegaráðuneytið.

Félag atvinnurekenda telur að þær breytingar á búvörusamningafrumvarpinu, sem meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til, séu allsendis ófullnægjandi.

„Búvörusamningarnir taka gildi og þeir eru áfram þannig úr garði gerðir að þeir skaða neytendur og samkeppni í landinu með afdrifaríkum og langvarandi hætti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.  „Þær jákvæðu breytingar sem meirihluti atvinnuveganefndar talar fyrir í nefndaráliti sínu eru síðan í breytingartillögum meirihlutans alltof veikt og óljóst orðaðar til að tryggt sé að ný vinnubrögð verði tekin upp við mótun landbúnaðarstefnunnar.“

Loðin breytingartillaga
Í nefndarálitinu er tekið fram að ekki sé ætlunin að læsa starfsskilyrðum landbúnaðarins í tíu ár. Áhersla er lögð á að með samþykkt frumvarpsins sé Alþingi eingöngu að staðfesta fyrstu þrjú ár samninga, sem gerðir voru til tíu ára. Meirihlutinn kallar jafnframt eftir breiðari samstöðu um starfsskilyrði í landbúnaði og segir nauðsynlegt að fleiri aðilar hafi tækifæri til að koma að þróun landbúnaðarstefnunnar.

Meirihlutinn beinir því til landbúnaðarráðherra að mynda hið fyrsta samráðsvettvang stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna. „Ráðherra skal efna til formlegs samráðs við framangreinda aðila um undirbúning endurskoðunar á búvörusamningum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að beita sér fyrir samstillingu af þessu tagi. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið í þessa veru,“ segir í nefndarálitinu.

Ólafur Stephensen segir að þegar sú breytingartillaga sé rýnd nánar sé hún alltof veikt orðuð. Hún er svohljóðandi: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.“

„Þetta er of veikt og loðið orðalag. Það þarf að vera algjörlega skýrt að það sem tekur við eftir endurskoðunina 2019 verði nýtt fyrirkomulag, en ekki framhald þessara vondu samninga,“ segir Ólafur. „Það er heldur ekki hægt að leggja það í hendur samtaka bænda hvort nýtt fyrirkomulag taki gildi eða haldið verði áfram að starfa samkvæmt þessum tíu ára samningi, sem hefur fengið gífurlega harða gagnrýni úr nánast öllum geirum samfélagsins. Stjórnvöldum ber engin skylda til að gera samning við eina atvinnugrein frekar en aðrar. Þeim ber hins vegar skylda til að taka ákvarðanir um skynsamlegt og hagkvæmt fyrirkomulag út frá almannahagsmunum.“

Vinnubrögðin mega aldrei endurtaka sig
Ólafur segir að Félag atvinnurekenda hafi fagnað því þegar Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar boðaði ný vinnubrögð og nýja hugsun við mótun landbúnaðarstefnunnar. „Fyrirheitin í nefndarálitinu eru falleg, en nýja hugsunin skilar sér ekki í lagaákvæðin sjálf. Þetta verður að vera miklu skýrar orðað og tryggt að stjórnvöld, hver sem þau verða eftir kosningar, geti ekki leikið sama leikinn og gert var síðastliðinn vetur. Þá samdi ríkið til dæmis við einkaaðila, sem eru Bændasamtökin, um að herða á einokun og samkeppnishömlum í mjólkuriðnaði og að hækka skatta á aðra einkaaðila, sem eru innflytjendur búvöru. Fulltrúum hagsmuna neytenda og annarra geira atvinnulífsins var ekki hleypt að borðinu. Það verður að vera tryggt að þessi vinnubrögð verði aldrei endurtekin.“

Nýjar fréttir

Innskráning