Lagaskylda til jafnlaunavottunar ekki tímabær

16.05.2017

Félag atvinnurekenda gerði allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi frumvarp félagsmála- og jafnréttisráðherra um jafnlaunavottun á fundi nefndarinnar í morgun. FA hefur jákvæða afstöðu til jafnlaunavottunar, en leggst gegn því að hún verði gerð að lagaskyldu.

Ekki fullreynt
Í umsögn FA um frumvarpið kemur fram að þrjár ástæður séu fyrir því að félagið telji að ekki sé ástæða til að gera jafnlaunavottun að lagaskyldu. Í fyrsta lagi sé  jafnlaunavottunin tiltölulega nýlegt úrræði fyrir fyrirtæki til að sýna fram á að þau uppfylli skilyrði jafnréttislaga um sömu laun fyrir sömu vinnu. Endanlegur jafnlaunastaðall var gefinn út í árslok 2012 og reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins var sett seint á árinu 2014. „Áhugi á jafnlaunavottun hefur verið mikill og vaxandi í atvinnulífinu og allmörg fyrirtæki hafa nú þegar gengið í gegnum ferlið. Það er því einfaldlega ekki tímabært að slá því föstu að fyrirtækin í landinu hafi ekki sýnt nægilegt frumkvæði að því að eyða kynbundnum launamun og ríkisvaldið verði að grípa þar inn í,“ segir í umsögninni.

Mikill kostnaður
Í öðru lagi hefur að mati FA ekki farið fram fullnægjandi mat á þeim kostnaði sem fylgir jafnlaunavottun og ríkið hyggst gera að skyldu fyrir fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn. „Reynsla fyrirtækja, sem gengið hafa í gegnum vottunarferlið, er að sá kostnaður sem felst í vinnu stjórnenda við innleiðingu jafnlaunastaðalsins sé margföld sú upphæð sem þarf að greiða vottunarfyrirtæki fyrir vinnu þess. Í öllum tilvikum hleypur þessi kostnaður á milljónum króna. Fyrir smærri fyrirtæki, sem hafa á bilinu 25-100 starfsmenn, getur þessi kostnaður og vinna stjórnenda verið mjög íþyngjandi, enda eru mörg fyrirtæki af þessari stærð ekki einu sinni með sérstakan mannauðsstjóra,“ segir í umsögn FA.

Þar er einnig bent á að ferlið sem staðallinn byggist á, með starfslýsingum og nákvæmri skráningu starfa, gangi þvert á fyrirtækjamenningu margra smærri fyrirtækja í örum vexti. „Kostnaðurinn og umstangið við að innleiða staðalinn getur orðið til þess að þau fyrirtæki hiki við að bæta við sig 25. starfsmanninum þegar komið er að þeim tímapunkti í vexti þeirra.“

Því er slegið föstu í greinargerð frumvarpsins að sá ávinningur, sem frumvarpið muni hafa í för með sér, vegi þyngra en sjónarmið um íþyngjandi áhrif þess fyrir fyrirtæki. „Að mati FA væri æskilegra að jafnlaunavottun næði útbreiðslu með því að eigendur og stjórnendur fyrirtækja mætu það sjálfir svo að hún skilaði meiri ávinningi en kostnaði, en með því að ríkið skyldi þá til þess að taka hana upp,“ segir í umsögn FA.

Staðallinn ekki tilbúinn
Í þriðja lagi vekur FA athygli á því mati fyrirtækja sem gengið hafa í gegnum vottunarferlið, að jafnlaunastaðallinn sé að mörgu leyti ekki tilbúinn og henti ekki að öllu leyti smærri fyrirtækjum á Íslandi. „Mat á menntun og starfsreynslu má rýna betur með tilliti til ólíkra atvinnugreina og útfæra á einfaldari hátt til að tryggja réttan samanburð. Að mati FA hefði verið æskilegt að leggja meiri vinnu í að laga staðalinn að aðstæðum í íslenzku atvinnulífi áður en farið væri að huga að því að gera innleiðingu hans að lagaskyldu,“ segir félagið.

Faggildingarmál í ólestri
FA segir að verði það engu að síður niðurstaðan að gera jafnlaunavottun að lagaskyldu, verði samhliða skapaðar réttar forsendur til þess að slíkt gerist með sem minnst íþyngjandi hætti, ekki sízt fyrir minni og meðalstór fyrirtæki.

„Félagið telur þannig jákvætt að í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins sé gert ráð fyrir að minni fyrirtæki fái lengri tíma til að fá jafnlaunavottun en þau stærri. FA telur jafnframt að ákvæði frumvarpsins, um að aðilar vinnumarkaðarins geti samið sín á milli um að smærri fyrirtækjum standi til boða staðfesting hagsmunaaðila á að þau uppfylli skilyrði jafnlaunastaðalsins, sé til bóta, leiði það til þess að einfaldari leið sé þannig búin til fyrir þessi fyrirtæki,“ segir í umsögninni.

Félagið telur mikilvægt að gerðar séu breytingar á jafnlaunastaðlinum til einföldunar, byggðar á reynslu þeirra fyrirtækja sem þegar hafa gengið í gegnum ferlið. Stjórnvöld geti jafnframt boðið fram betri hjálpartæki fyrir minni fyrirtæki til að auðvelda þeim að uppfylla kröfur staðalsins.

Loks bendir FA á ófremdarástand í faggildingarmálum á Íslandi: „Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er ráð fyrir því gert að vottunaraðilar, sem votta jafnlaunastaðalinn, hafi hlotið faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að benda á það ófremdarástand sem ríkir í faggildingarmálum hér á landi. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu hefur vegna mannafla- og þekkingarskorts enga burði til að uppfylla lögbundið hlutverk stofnunarinnar á sviði faggildingar. Vottunarfyrirtæki hafa neyðst til að sækja sér faggildingu til útlanda, með kostnaði sem ríður rekstri þeirra á slig. Afar brýnt er að bætt verði úr þessu, eigi jafnlaunavottun að verða að veruleika, annars mun faggildingin verða flöskuháls í ferlinu og skortur verða á vottunaraðilum sem eru til þess bærir að votta jafnlaunakerfi.“

Umsögn FA um jafnlaunavottunarfrumvarpið

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning