Landspítalinn fær flestar kærur vegna útboða

17.05.2016
Útboðskærur
Opinber fyrirtæki og stofnanir sem oftast voru kærðar til kærunefndar útboðsmála 2011-2015.

Landspítalinn er oftast kærður vegna meintra brota á lögum um opinber innkaup. Auk spítalans eru Ríkiskaup, Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Isavia oftast kærð til kærunefndar útboðsmála. Þetta kemur fram í gögnum sem Félag atvinnurekenda hefur tekið saman og voru kynnt á morgunverðarfundi félagsins í morgun.

Inga Skarphéðinsdóttir, lögfræðingur FA, fór yfir tölur um kærur til kærunefndarinnar síðastliðin fimm ár, 2011-2015. Í samantektinni kemur fram opinberar stofnanir voru kærðar 145 sinnum til kærunefndarinnar á tímabilinu. Þar af var Landspítalinn kærður í 25 skipti og Ríkiskaup 19 sinnum. Þá var Vegagerðin kærð 17 sinnum, Reykjavíkurborg í 16 skipti og loks Isavia í 9 tilfellum. Kærumál þessara fimm stofnana á tímabilinu voru 86 talsins, sem er ríflega helmingur málanna.

Í erindi Ingu kom fram að fjöldi kæra endurspeglaði að sumu leyti að þetta væru stofnanir sem byðu út mikið af vöru og þjónustu, en það væri ekki síður vandamál hjá opinberum stofnunum að þær létu undir höfuð leggjast að bjóða út innkaup.

Utbodsfundur Inga (1)
Inga Skarphéðinsdóttir á morgunverðarfundi FA.

Inga benti á að líklegt væri að mál þar sem fyrirtæki telja á sér brotið væru í raun enn fleiri, því að FA hefði vitneskju um mörg fyrirtæki sem væru treg til að kæra þar sem þau óttuðust að það kæmi niður á þeim í framtíðarútboðum. Í umsögn sinni um frumvarp til laga um opinber innkaup, sem nú er til meðferðar á Alþingi, leggur Félag atvinnurekenda til að atvinnuvegasamtök á borð við FA fái heimild til að kæra útboð. Slík heimild þýddi að einstök fyrirtæki þyrftu ekki að stíga fram, en aðhaldið að innkaupum ríkisins væri tryggt.

Gagnrýni á tillögu um afnám samkeppismats
Inga gagnrýndi hins vegar harðlega tillögu frumvarpsins um að afnema svokallað samkeppnismat þegar ríkisstofnanir taka þátt í útboðum erlendis. Inga benti á að samkeppnismatið væri ætlað til þess að slík útboð græfu ekki undan samkeppni innanlands og legðu þá kröfu á stofnanir sem vildu nota þennan möguleika að þær einblíndu ekki á innkaupsverð vöru heldur skoðuðu hvernig fara ætti með utanumhald vörunnar, flutning, gæðaeftirlit, fræðslu, lagerhald, dreifingu, kvartanir, vöruskil, viðgerðir o.fl. Inga benti á að slíkt utanumhald og umsýsla væri ekki ókeypis en óljóst gæti verið hver ætti að sjá um hana og bera þann kostnað þegar skipt væri við fyrirtæki sem yrðu hlutskörpust í útboðum opinberra innkaupastofnana í öðrum ríkjum.

Í fréttum hefur komið fram að það er aðallega Landspítalinn sem hefur þrýst á stjórnvöld að afnema ákvæðin um samkeppnismat og segja forsvarsmenn spítalans þau hafa komið í veg fyrir sparnað með útboðum erlendis. Í umræðum í fundarlok var Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, spurður hvort hann væri sammála því að samkeppnismatið væri óþarft. Hann svaraði því til að fram hefði komið í máli forstjóra Ríkiskaupa að Landspítalinn hefði ekki látið reyna á heimild núgildandi laga til að taka þátt í útboðum erlendra innkaupastofnana að undangengnu samkeppnismati. „Ég hlakka bara til að heyra hvort menn hafi ekki látið á þetta reyna. Ef menn hafa bara farið í fýlu og vilja þá ekki láta á það reyna hvort þetta gengur, gæti það kostað mikla peninga. Það er mjög alvarlegt ef Landspítalinn lét ekki á þetta reyna. Það er þá bara sérmál og kallar ekki á lagabreytingar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Glærur Ingu

 

 

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning