Launahækkanir umfram verðbólgumarkmið geta kynt undir verðbólgu

05.09.2023

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, segir að náist ekki að auka framleiðni hér á landi sé hætta á að verulegar launahækkanir umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans gætu fóðrað verðbólguna. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli hennar á félagsfundi Félags atvinnurekenda í morgun, þar sem Rannveig fór yfir efnahagshorfur og svaraði spurningum félagsmanna. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan og skoða glærur Rannveigar neðar í fréttinni.

Háar verðbólguvæntingar áhyggjuefni
Rannveig ræddi í erindi sínu að væntingar um mikla verðbólgu væru áhyggjuefni, því að þær gætu meðal annars haft áhrif á launakröfur í komandi kjarasamningum. Hún sagði að síðustu kjarasamningar, með um 7% launahækkunum að meðaltali, hefðu líklega fóðrað verðbólguna, ekki síst vegna þess að ekki væri nægileg framleiðniaukning til að mæta þeim alls staðar í atvinnulífinu.

Ef framleiðniaukning fylgir ekki kynda launahækkanir undir verðbólgu
Framkvæmdastjóri FA spurði hvort hækkanir í næstu kjarasamningum umfram verðbólgumarkmið bankans væru ekki jafnframt líklegar til að kynda áfram undir verðbólgu. „Ef framleiðniaukningin er lítil, eða nánast engin eins og hún hefur verið hérna, þá er náttúrlega allt sem er umfram tvö og hálft prósent til lengdar líklegt til að kynda verðbólguna,“ svaraði Rannveig. „Það sem við vildum helst sjá væri að verðbólgan sjálf væri farin að koma trúverðugt niður og verðbólguvæntingarnar líka. Þá hefðu almenningur og atvinnurekendur betri trú á að hægt væri að gera hófsamari kjarasamninga til lengri tíma sem samræmdust verðbólgumarkmiðinu.“

Rannveig benti á að hægt væri að semja um miklar nafnlaunahækkanir, en það sem máli skipti á endanum væri hækkun raunlauna.

Byrjuð að sjá árangur af peningastefnunni
Varaseðlabankastjórinn var jafnframt spurð hvort vænta mætti frekari stýrivaxtahækkana ef spá um 7,5% verðbólgu á síðasta ársfjórðungi raungerðist. „Í nýjustu yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að það fari eftir þróun og horfum hver næsta ákvörðun verður … Við vitum ekki nákvæmlega hversu hratt þetta mun gerast. Við vitum að verðbólgan mun nást niður og við sjáum árangur; húsnæðisverð lækkar, það hægir á einkaneyslu og fjárfestingum. Við sjáum árangurinn en við viljum sjá hann koma hraðar og að verðbólgan lækki hraðar, því að það er ennþá alltof mikill kraftur í eftirspurninni og þá sérstaklega á vinnumarkaði,“ sagði Rannveig.

Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA eins og sjá má af myndunum hér að neðan.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning