Leið til að lækka verðbólguna

02.03.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 2. mars 2023.

Í byrjun febrúar áttu Félag atvinnurekenda og viðsemjendur þess innan Alþýðusambandsins, VR, Landssamband verzlunarmanna og Rafiðnaðarsambandið, fundi með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða sameiginlegar tillögur samtakanna um lækkun og niðurfellingu tolla. Gerð var sérstök bókun í kjarasamningum FA og þessara ASÍ-félaga í desember um sameiginlegan erindrekstur gagnvart stjórnvöldum, á þeirri forsendu að lækkun tolla væri ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega.

Tilgangurinn með þessum tillögum er einfaldur; að verja þann aukna kaupmátt sem um var samið í desember. Samtökin leggja í fyrsta lagi til breytta framkvæmd á útboðum tollkvóta, en innlendir framleiðendur hafa misnotað útboðsfyrirkomulagið til að hækka verð á innflutningi og hindra þannig samkeppni við sjálfa sig. Einnig var lagt til við ráðherrana að fella niður tolla á frönskum kartöflum og ýmsum blómum, sem engin innlend framleiðsla er á. Það er aðgerð sem skerðir enga hagsmuni innlendra framleiðenda. Þá var lagt til að fella niður tollvernd á alifugla- og svínakjöti, en tollar á þessum vörum vernda aðallega verksmiðjubúskap á vegum stórfyrirtækja. Fyrir nokkrum árum reiknaði Rannsóknasetur verzlunarinnar út fyrir FA að slík aðgerð myndi lækka verð svínakjöts um tæplega 16% og kjúklingakjöts um 25%.

Ráðherrarnir tóku málaleitan samtakanna vel og sögðust myndu bera saman bækur sínar eftir fundina. Engin svör við tillögunum hafa hins vegar borizt. Nú liggur fyrir að verðlag hefur hækkað umtalsvert meira en gert var ráð fyrir þegar kjarasamningarnir voru undirritaðir. Ætla mætti að stjórnvöld veltu nú við hverjum steini til að finna leiðir til að vinna gegn verðbólgunni og bæta hag almennings. Ráðherrarnir skulda FA og ASÍ-félögunum alltént útskýringar ef ætlunin er að bregðast ekki við tillögunum. Hvaða hagsmuni ætti það að verja?

Nýjar fréttir

19. nóvember 2024

Innskráning