Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út ýtarlegar leiðbeiningar fyrir vinnuveitendur vegna COVID-19 faraldursins. Skjalið inniheldur leiðbeiningar um smitgát á vinnustöðum, atriði til að hafa í huga vegna funda og viðburða, leiðbeiningar um aðgát vegna ferðalaga starfsmanna og ráðleggingar um áætlun um hvað beri að gera ef einhver veikist á vinnustaðnum.
Smitgát á vinnustöðum
Á meðal einfaldra aðgerða til að vinna gegn smiti á vinnustöðum er:
- Gæta vel að þrifum og hreinlæti
- Sótthreinsa yfirborðsfleti (skrifborð, síma, lyklaborð) reglulega
- Hafa handspritt aðgengilegt fyrir starfsmenn og viðskiptavini
- Hengja upp veggspjöld sem hvetja til handþvottar
- Gæta þess að starfsmenn, viðskiptavinir og verktakar hafi aðgang að handþvottaaðstöðu
- Ráðleggja starfsmönnum að fylgja leiðbeiningum yfirvalda um ferðalög erlendis
- Skýra fyrir starfsmönnum, verktökum og viðskiptavinum að jafnvel fólk með væg flensueinkenni eins og hita eða hósta verði að halda sig heima
Fundir og viðburðir
Varðandi skipulag funda og viðburða er fyrirtækjum ráðlagt að fylgja ráðum yfirvalda á hverju svæði. Jafnframt þurfi að hafa í huga hvort fjarfundur geti komið í stað venjulegs fundar. Nauðsynlegt sé að hafa t.d. sótthreinsi við höndina fyrir fundarmenn. Þá er lagt til að tryggt sé að fundarboðendur hafi upplýsingar um alla fundarmenn, komi í ljós að einhver fundarmanna sé veikur eða greinist að fundi loknum.
Ferðalög
Leiðbeiningar um viðskiptaferðalög eru talsvert ýtarlegar og er meðal annars mælt með áhættumati áður en farið er í ferð, að fyrirtæki forðist að senda starfsmenn úr áhættuhópum í ferðalög, að fyllsta hreinlætis sé gætt og starfsmenn haldi sig frá fólki sem sýni flensueinkenni. Þá sé mikilvægt að fylgja leiðbeiningum yfirvalda á hverjum stað og að fylgjast vel með heilsunni eftir að heim er komið.
Hvað ef einhver veikist?
Fyrirtækjum er ráðlagt að hafa áætlun um hvernig bregðast skuli við ef einhver veikist á vinnustaðnum og grunur er um COVID-19 smit. Hafa þurfi í huga að hægt sé að einangra viðkomandi, að sem fæstir komist í snertingu við hann og heilbrigðisyfirvöldum sé gert viðvart. Þá þurfi að gera áætlun um hvernig eigi að tryggja órofinn rekstur, fari svo að hluti starfsliðsins veikist.
Hér er aðeins stiklað á stóru; Félag atvinnurekenda hvetur félagsmenn sína til að kynna sér leiðbeiningarnar vel.
Fyrirtæki kynni sér viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs
FA hefur einnig vakið athygli félagsmanna sinna á viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs. Í 8. kafla áætlunarinnar eru taldir upp ýmsir mikilvægir fyrirtækjahópar, t.d. lyfjaframleiðendur og -innflytjendur (8.15), lyfjaheildsalar dýralyfja (8.16), dreifingaraðilar lyfja (8.17), matvælabirgjar og matvælaframleiðendur (8.19), olíufélög (8.21), flutningafyrirtæki (8.22) og fjarskiptafyrirtæki (8.40) en fyrirtæki úr öllum þessum hópum eru innan vébanda FA.
Þá vekur FA athygli á viðauka 13.2, gátlista um órofinn rekstur fyrirtækja, sem er aftast í skjalinu. Honum er ætlað að vera stuðningur við áætlanagerð fyrirtækja um um órofinn rekstur í heimsfaraldri. Allir fyrirtækjastjórnendur ættu að renna yfir þennan lista og velta fyrir sér hvað eigi við um þeirra fyrirtæki.
Leiðbeiningar WHO til vinnuveitenda
Vefur Landlæknisembættisins – leiðbeiningar fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu
Veggspjald Landspítala og WHO á íslensku
Veggspjald Landspítala og WHO á ensku
Veggspjald Landspítala og WHO á pólsku