Lítil hætta á að sýklalyfjaónæmar bakteríur berist í fólk úr búfjárafurðum

15.05.2017

Lítil hætta er talin á að bakteríur, sem ónæmar eru fyrir sýklalyfjum, berist í fólk með neyslu búfjárafurða, þar sem þær eru yfirleitt soðnar eða steiktar fyrir neyslu. Þetta er á meðal niðurstaðna starfshóps heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Hópurinn gerir engar tillögur um takmarkanir á innflutningi búvara til að stemma stigu við sýklalyfjaónæmi. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í dag og voru niðurstöðurnar kynntar á ráðstefnu Matvælastofnunar.

Í skýrslu hópsins er bent á að sýklalyfjaónæmar bakteríur geti auðveldlega dreifst með ferðamönnum sem komi frá svæðum þar sem hlutfall ónæmis er hátt. Stóraukinn ferðamannastraumur og aukin ferðalög Íslendinga auki því áhættuna hér á landi. Meðal tillagna starfshópsins er að unnið verði að því að minnnka áhættu á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería með ferðamönnum, meðal annars með því að bæta hreinlætisaðstöðu á ferðamannastöðum.

Í umfjöllun skýrsluhöfunda um matvæli kemur fram að samkvæmt nýlegri skýrslu evrópskra stofnana kjöt í Evrópu, einkum alifuglakjöt, geti innihaldið sýklalyfjaónæmar bakteríur, sem valdið geti sýkingum í mönnum. „Þó ekki sé nákvæmlega vitað hversu miklar líkur eru á dreifingu ónæmra baktería frá matvælum yfir í menn þá er ljóst að slíkt getur gerst með kjöti og einnig grænmeti,“ segir í skýrslunni. „Almennt er þó talið að lítil hætta sé á að ónæmar bakteríur berist í fólk með neyslu búfjárafurða þar sem þær eru að jafnaði hitameðhöndlaðar (soðnar/steiktar) fyrir neyslu og bakteríurnar þannig drepnar. Annað gildir um grænmeti sem borðað er hrátt. Því má færa fyrir því rök að líkur á smiti frá grænmeti geti verið meiri en frá kjöti.“

Skýrsluhöfundar nefna að á Íslandi hafi verið gerð sú krafa að ferskt innflutt kjöt þurfi að hafa verið fryst í a.m.k. fjórar vikur. „Frysting minnkar magn kampýlóbakters í matvælunum en hefur lítil áhrif á aðrar bakteríur. Lögmæti þessarar kröfu Íslendinga hefur verið dregið í efa og er nú tekist á um það fyrir dómstólum,“ segir í skýrslunni.

Minna eftirlit á Íslandi en í ESB

Frá ráðstefnu MAST í fundarsal Íslenskrar erfðagreiningar.

Í henni kemur einnig fram að eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum er mun minna hér á landi en í löndum Evrópusambandsins. „Í Evrópusambandinu hefur frá árinu 2013 verið í gildi ákvörðun nr. 652/2013 um skýrslugjöf og vöktun á sjúkdómsvaldandi bakteríum sem berast milli manna og dýra, og bendibakteríum (sem að öllu jöfnu valda ekki sjúkdómum) í framleiðslubúum og matvælum. Þessi ákvörðun Evrópusambandsins hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi en hér á landi er einungis eftirlit með sýklalyfjaónæmi í framleiðslubúum en lítið sem ekkert eftirlit með matvælum (innlendum sem erlendum). Upplýsingar skortir því um hvort og í hversu miklu mæli sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast í matvælum á Íslandi. Fjármagn hefur hins vegar fengist til að rannsaka matvæli á árinu 2017 í samræmi við fyrrgreinda ákvörðun Evrópusambandsins þó hún hafi ekki verið innleidd,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar leggja til að ákvörðun ESB verði innleidd á Íslandi án tafar og að fé verði tryggt þannig að fylgst verði með sýklalyfjaónæmi hjá sjúkdómsvaldandi bakteríum og ákveðnum bendibakteríum í búfé og sláturafurðum. „Þá fyrst verður hægt að bera Ísland saman við önnur Evrópulönd og fá betri mynd af algengi og þróun ónæmis hér á landi,“ segir í skýrslunni.

FA boðar eigin skýrslu
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að skýrslan sé gagnlegt innlegg í umræðuna um innflutning búvara og mögulega áhættu sem henni fylgi. „Þessar niðurstöður gefa til kynna að það sé minni innistæða en ætla mátti fyrir hræðsluáróðri um yfirvofandi heilbrigðisvá vegna aukins innflutnings búvöru, sérstaklega kjötafurða,“ segir Ólafur. „Þvert á móti má lesa út úr skýrslunni að sú hætta sé takmörkuð, en áhætta vegna aukinna ferðalaga Íslendinga og útlendinga vegi þyngra. Þá kemur það líka fram í þessari skýrslu sem við höfum áður bent á, að það er lágmark að eftirlit hér á landi sé jafngott og í nágrannalöndunum áður en hægt er að hafa uppi stórar fullyrðingar um hættu sem fylgi auknum innflutningi frá öðrum Evrópuríkjum.“

Ólafur segir FA fylgjast vel með þessum málum. „Við höfum fengið tvo virta vísindamenn til að vinna fyrir félagið skýrslu um mögulega áhættu vegna aukins innflutnings búvara og afnáms banns við innflutningi á fersku kjöti og eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk. Þar verður vonandi svarað enn fleiri spurningum en þessi skýrsla starfshópsins svarar. Sé áhætta fyrir hendi, spyrjum við til dæmis hvort til séu minna íþyngjandi aðgerðir en innflutningshömlur til að halda henni í lágmarki. Það þarf að vega saman hag neytenda af þeirri samkeppni, sem felst í innflutningi matvöru, og mögulegri áhættu sem kann að fylgja einstökum vörum eða vöruflokkum.“

Skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning