Litlu sigrarnir í baráttunni fyrir viðskiptafrelsi

21.12.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 21. desember 2022.

Félag atvinnurekenda verður 95 ára á nýju ári, var stofnað 1928 og hét þá Félag íslenzkra stórkaupmanna. Allan þennan tíma hefur félagið barizt fyrir lækkun tolla og auknu frelsi í milliríkjaviðskiptum. Stundum hafa unnizt stórir sigrar í þeirri baráttu, eins og með afnámi innflutningshafta á viðreisnarárunum og þegar tollar féllu niður af öllum vörum nema matvörum og blómum á síðasta áratug. Stundum eru sigrarnir litlir en þó ánægjulegir. Einn slíkur vannst í síðustu viku þegar Alþingi brást við áskorunum félagsins og breytti tollskránni, lækkaði toll á frönskum kartöflum úr 76% í 46%.

FA hefði gjarnan viljað hafa lækkunina meiri. Félagið hefur árum saman bent á að þessi tiltekni verndartollur verndi í raun ekki neitt – undanfarin ár hefur eitt íslenzkt iðnfyrirtæki framleitt franskar kartöflur, að stærstum hluta úr innfluttu hráefni. Á árinu hætti þetta eina fyrirtæki að framleiða vöruna og þar með hvarf eina réttlætingin fyrir því að viðhalda þessum fráleita tolli, sem kostar íslenzka neytendur að lágmarki 300 milljónir króna á ári.

Bændasamtök Íslands börðust nú samt gegn niðurfellingu tollsins. Kannski er það bara af gömlum vana, því að vandséð er hvaða hagsmuni var þar verið að vernda. Íslenzkir kartöflubændur geta ævinlega selt alla sína uppskeru sem á annað borð er í söluhæfu ástandi. En kannski finnst BÍ bara vissara að vera á móti öllum tollalækkunum, því að lækkun eins tolls gæti komið inn hjá fólki hugmyndum um að lækka fleiri.

Í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis náðu stjórn og stjórnarandstaða málamiðlun um að lækka fröllutollinn úr 76% í 46%. Í greinargerð með sameiginlegri tillögu þeirra Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns nefndarinnar, og Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar (sem hafði lagt til afnám tollsins) segir: „Verði tillagan samþykkt mun þetta Íslandsmet í tollheimtu heyra sögunni til.“ Þetta er kannski svolítið óheppilega orðað, því að þrátt fyrir 30 prósentustiga lækkun verður tollurinn á franskar kartöflur eftir sem áður hæsti prósentutollur tollskrárinnar. Því er svo ósvarað hvaða hagsmunir útheimti að neytendur séu áfram látnir bera þessar byrðar.

Lækkun tollsins mun því miður ekki þýða miklar lækkanir á verði franskra kartaflna. Ástæðan er sú að íslenzka ríkið hafði þegar af örlæti sínu lækkað tollinn í 46% í fríverzlunarsamningum við Kanada og Evrópusambandið. Um 99% af öllum frönskum kartöflum sem fluttar hafa verið inn undanfarin ár koma frá þessum tveimur svæðum, enda hefur 76% tollurinn í raun útilokað innflutning frá öðrum ríkjum heimsins.

Þessi tollalækkun hefur því sennilega fyrst og fremst þær afleiðingar að innflutningur á frönskum kartöflum frá Bandaríkjunum mun aukast. Þar eru mörg öflug vörumerki á markaði sem íslenzkir neytendur þekkja ekki til af því að tollar hafa hindrað innflutning á þeim. Væntanlega mun breytingin því auka vöruúrval. Þar með eykst líka samkeppni í innflutningi og má vona að það leiði af sér einhverjar verðlækkanir, þótt þær verði ekki jafnmiklar og vænta hefði mátt ef tollurinn hefði verið felldur niður að fullu.

Þannig skipta litlu sigrarnir líka máli – og svo heldur baráttan áfram. FA hefur á undanförnum dögum gert kjarasamninga við VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandið og Grafíu. Í öllum samningunum er samhljóða bókun: „Aðilar sammælast um að óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

FA fagnar þessum góðu bandamönnum í baráttunni fyrir lækkun tolla. Hún er augljóslega sameiginlegt hagsmunamál verzlunarinnar og launþegahreyfingarinnar.

Nýjar fréttir

Innskráning