Lög og rettur

22.03.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 22. mars 2018.

Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrumvarp um rafrettur. Það er að hluta innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins, sem inniheldur reglur um öryggi og gæði vörunnar, vernd barna og upplýsingar fyrir neytandann, sem er nú allt fremur sjálfsagt mál. Hins vegar vill heilbrigðisráðherra ganga miklu lengra og láta sömu ákvæði gilda um rafrettur og reyktóbak.

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á að slíkt inngrip í stjórnarskrárbundið atvinnu- og athafnafrelsi hlýtur að þurfa að rökstyðja vandlega. Rökin í frumvarpinu eru vægast sagt rýr. Ekki er vitnað til neinna rannsókna sem styðja að gufa frá rafrettum sé jafnhættuleg og tóbaksreykur, enda eru þær ekki til. Þvert á móti sýna allar rannsóknir að hættan af notkun rafrettna er hverfandi miðað við sígarettur.

Raunar má færa rök fyrir því að bann við því að hafa rafrettur sýnilegar og segja neytendum frá því hvernig þær eru notaðar, styðji við sterka stöðu sígarettunnar. Sama má segja um bann við notkun rafrettna í almannarýmum eins og t.d. á flugvöllum; notendur þeirra eru þá skikkaðir inn í sömu lokuðu rýmin og reykingamenn nota.

Við þetta bætist að ólíkt fyrra frumvarpi Óttarrs Proppé eiga ákvæði frumvarps Svandísar Svavarsdóttur að gilda um allar rafrettur, líka þær sem ekki innihalda nikótín. Út úr því koma furðulegar útkomur; þannig verður skylt að hafa aðvaranir á nikótínlausu rafrettunum. Hvað á að standa í þeim virðist enginn vita.

Flest bendir til að þessi nýja leið til að innbyrða nikótín – eða ekkert nikótín – líði fyrir líkindin við notkun reyktóbaks. Að minnsta kosti er ekki sami ótti meðal heilbrigðisstétta og embættismanna við nikótíntyggjó eða –plástra, sem þjóna þó sama tilgangi.

Við getum ekki látið illa skilgreindan ótta, sem ekki byggist á staðreyndum, ráða því að Alþingi setji lög til að hafa vit fyrir fólki.

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning