Losun hafta auðveldari með evru

31.03.2015
Morgunverðarfundur KPMG var gríðarlega vel sóttur.
Morgunverðarfundur KPMG var gríðarlega vel sóttur.

Ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru myndi fela í sér heppilegra umhverfi til losunar gjaldeyrishafta á Íslandi. Þetta er meðal helstu niðurstaðna sviðsmyndagreiningar KPMG, sem unnin var að beiðni Félags atvinnurekenda, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Viðskiptaráðs Íslands.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fjölsóttum morgunfundi KPMG í morgun. Í máli Svanbjörns Thoroddsen, eins skýrsluhöfunda, kom fram að á meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar væri að ef stefnt væri að upptöku evru yrðu áhrifin af losun hafta miklu vægari og síður öfgafull en ef Ísland hygðist áfram búa við krónuna. Umhverfið yrði stöðugra vegna minni sveiflna í þróun krónunnar, minni verðbólgu og stöðugra vaxtastigs.

Þá sagði Svanbjörn að trúverðugleiki við afnám hafta væri mikilvægur. Með upptöku evru við ESB-aðild yrði trúverðugleiki ferlisins meiri. Fyrirtæki ættu auðveldara með áætlanagerð og ákvarðanatöku, innlend fjárfesting yrði meiri og draga myndi úr brotthvarfi íslenskra fyrirtækja, en í fyrri sviðsmyndagreiningu KPMG var talin hætta á slíku, sérstaklega við hæga losun hafta. „Sú hætta er mun minni í niðurstöðum þessarar greiningar þar sem trúverugleiki um að höftin verði losuð í framtíðinni er meiri,“ segir í skýrslu KPMG.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir jafnframt: „Af niðurstöðum þessarar greiningar og samanburði við fyrri greiningu má draga þá ályktun að ákvörðun um inngöngu í ESB með upptöku evru feli í sér heppilegra umhverfi til losunar hafta með auknum stöðugleika og þrótti íslensks atvinnulífs, hvort sem losun hafta verður hröð eða hæg. Jafnframt virðist auðveldara að losa fjármagnshöftin hratt með upptöku evru í farvatninu og efnahagssveiflur við hraða losun verða minni.“

Óskynsamlegt að fækka valkostum í peningamálum
Þessar niðurstöður eru í takt við afstöðu stjórnar Félags atvinnurekenda, sem hefur talið óskynsamlegt að slíta aðildarferlinu við Evrópusambandið, ekki síst vegna óvissu um framtíð peningamála. Þannig sagði í ályktun stjórnarinnar 27. janúar síðastliðinn:

„Þótt núverandi ríkisstjórn telji sig ekki hafa pólitískar forsendur til að ljúka aðildarviðræðum er afar óskynsamlegt og misráðið að fækka valkostum Íslands í peningamálum með því að afturkalla aðildarumsóknina. Það þýðir að telji stjórnvöld í landinu síðar að upptaka evru með ESB-aðild sé skynsamlegur kostur í peningamálum mun taka mun lengri tíma og verða kostnaðarsamara en ella að taka á ný upp viðræður við sambandið og ná því takmarki.“

Sviðsmyndagreining KPMG

Nýjar fréttir

Innskráning