Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 7. febrúar 2023.
Lyfjaskortur hefur verið til umræðu hér á landi undanfarna mánuði. Að einhverju leyti er um alþjóðlegt vandamál að ræða, t.d. vegna skorts á hráefnum og hnökra í aðfangakeðjum, sem á ekki frekar við um Ísland en önnur lönd.
Lyfjastofnun hefur hins vegar réttilega bent á það vandamál að úrval lyfja er minna á Íslandi en í flestum nágrannalöndunum. „Okkur vantar fleiri markaðssett lyf og fleiri samheitalyf. Við höfum barist fyrir að fá undanþágur frá merkingum og hvetjum aðila til að vera með á íslenskum markaði,“ sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar í Fréttablaðinu í lok september sl.
Í skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir var bent á að hér á landi eru skráð um 3.300 vörunúmer lyfja, samanborið við 9-14 þúsund í nágrannalöndunum. Ekki þarf að fara í grafgötur um að það að færri lyf séu skráð hér á landi þýðir að meiri hætta getur orðið á skorti ef eitt lyf vantar og önnur með sambærilega virkni eru ekki skráð og markaðssett.
Í skýrslunni kemur fram að skráðum lyfjum hefur fækkað undanfarin ár, á sama tíma og undanþágulyfjum hefur fjölgað í um 1.100. Þetta þýðir að um fjórðungur vörunúmera lyfja sem eru í notkun á Íslandi eru undanþágulyf, en það er yfirlýst markmið Lyfjastofnunar og annarra heilbrigðisyfirvalda að fækka undanþágulyfjunum.
Félag atvinnurekenda hefur bent á að stefna stjórnvalda er stóri skýringarþátturinn í því að skráðum lyfjum fækkar á Íslandi og ný lyf, sem eru bæði með bætta virkni og hagkvæmari í notkun en eldri lyf, fást ekki skráð og markaðssett. Annars vegar er það stefna stjórnvalda um að heildsöluverð lyfja skuli miðast við lægsta verð eða meðalverð á margfalt stærri mörkuðum, sem fælir lyfjaframleiðendur frá því að skrá og markaðssetja lyf sín á Íslandi. Hins vegar er það gjaldtaka Lyfjastofnunar sjálfrar við skráningu lyfja sem er fyrirstaða. Kostnaður við skráningu lyfja er langtum hærra hlutfall veltu á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Ætla má að velta 20-30% skráðra lyfja standi í raun undir skráningargjöldum, en í 70-80% tilvika gerir hún það ekki.
Því miður bendir ekkert til þess að heilbrigðisráðuneytið eða Lyfjastofnun taki mark á ábendingum um að hár skráningarkostnaður hindri að ný lyf séu skráð á Íslandi. Heilbrigðisráðherra gaf a.m.k. út nýja gjaldskrá Lyfjastofnunar, sem tók gildi í ársbyrjun, þar sem meðalhækkun allra liða, þar með talinna gjalda fyrir skráningu lyfja, er 10,6%.
Þetta heitir ekki að „hvetja aðila til að vera með á íslenskum markaði“. Þetta heitir að fæla þá frá.