Velferðarráðuneytið hefur eftir langa mæðu brugðist við ársgamalli kvörtun Félags atvinnurekenda vegna stjórnsýslu Lyfjagreiðslunefndar (LGN). Ráðuneytið beinir því til nefndarinnar að hún endurskoði verkferla þegar teknar eru ákvarðanir um leyfisskyldu lyfja og hvernig samráði við aðra sé háttað um þá ákvarðanatöku. Samráð við sérfræðinga frá Landspítala og Sjúkratryggingum Íslands skuli eiga sér stað áður en ákvörðun um leyfisskyldu og greiðsluþátttöku sé tekin, enda skuli rökstudd ákvörðun LGN liggja fyrir og fyrirtækinu sem sækir um leyfið tilkynnt um lyfjaverð, leyfisskyldu og greiðsluþátttöku.
Kvörtun FA sneri meðal annars að því að við ákvarðanir um leyfisskyldu lyfja vísaði nefndin til lista frá Landspítalanum, sem var ekki birtur opinberlega og því ekki aðgengilegur. Lyfjafyrirtækin hafi því engan veginn getað áttað sig á því á hverju ákvarðanir nefndarinnar byggðust.
Að mati ráðuneytisins er Lyfjagreiðslunefnd ekki stætt á að vísa til upplýsinga um lyf sem ekki séu aðgengilegar. „Þrátt fyrir að LGN telji að öllum hlutaðeigandi eigi að vera ljóst með hvaða takmörkun greiðsluþátttaka sé í ákveðnum lyfjum, sé það ekki nægjanlegt. LGN ber að tryggja að ákvarðanir séu skýrar og birtar með þeim hætti að tryggt sé að allir hlutaðeigandi fái vitneskju um takmörkun á greiðsluþátttöku, ef um slíkt er að ræða“, segir í bréfi ráðuneytisins til Lyfjagreiðslunefndar.