„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 17. júní 2021.
Þeir sem héldu að Alþýðusamband Ísland væri málsvari vinnandi fólks hljóta að vera hissa á framgöngu forystumanna þess undanfarið.
Atvinnurekendum, sem hafa boðið fólki á atvinnuleysisskrá vinnu í samstarfi við Vinnumálastofnun og fengið t.d. þau svör að það henti betur að vera á bótum en að þiggja starfið, hefur þótt sérkennilegt að sjá forystu ASÍ taka upp hanzkann fyrir þennan hóp. Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að tala um nein undirboð heldur laun samkvæmt kjarasamningum og góðan aðbúnað. ASÍ virðist þannig líta á sig sem sérstakan málsvara fólks sem er ekki raunverulegir atvinnuleitendur heldur kýs að þiggja bætur á kostnað félagsmanna ASÍ og annars vinnandi fólks þótt það eigi kost á öðru. Það er skrýtið að ASÍ vilji ekki tala um þennan vanda eins og hann er.
Það er líka sérkennilegt að sjá forystu ASÍ beita sér af mikilli hörku gegn fyrirtæki sem hyggst byggja upp atvinnustarfsemi af krafti og búa til hundruð starfa af því að samningar þess og stéttarfélaga passa ekki inn í sniðmát ASÍ. Framganga ASÍ gegn flugfélaginu Play og starfsfólki þess hefur verið með miklum ólíkindum. Sambandið hefur þannig hvatt neytendur til að sniðganga Play, sem er nánast einsdæmi í íslenzkri viðskiptasögu.
ASÍ beitir sér gegn félagi sem mun ekki sízt fjölga störfum á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Sambandið vinnur um leið gegn virkri samkeppni á flugmarkaði, sem er mikið hagsmunamál almennings.
Getur verið að ASÍ hafi misst sjónar á því grundvallaratriði að atvinnuuppbygging er frumforsenda þess að félagsmenn þess hafi vinnu og njóti góðra kjara? Getur verið að þeir hinir sömu félagsmenn styðji þá stefnu forystunnar að verja fremur atvinnuleysisskrána en að fjölga störfum eftir eina erfiðustu kreppu í manna minnum?