Margt hægt að gera til að taka betur á móti kínverskum ferðamönnum

22.01.2020
Fjölmenni var á fundinum og fylgdust á fjórða hundrað manns með honum, í salnum og á netinu.

Betri merkingar og upplýsingar á kínversku, vinsamlegra viðmót, greiðar leiðir til að borga með farsímanum sínum og meiri skilningur á kínverskri menningu og siðum er á meðal þess sem þarf til að taka betur á móti kínverskum ferðamönnum. Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, ásamt Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu, stóð í morgun fyrir fjölmennum fræðslufundi um móttöku kínverskra ferðamanna. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum og skoða glærur frummælenda í spilaranum hér að neðan.

Mikill áhugi var á fundinum, en hann sóttu um 250 manns og 70-90 manns fylgdust í senn með beinni útsendingu frá honum. Vegna mikillar aðsóknar var fundurinn færður úr kínverska sendiráðinu og yfir á Grand Hótel.

Tæplega 100 þúsund kínverskir ferðamenn komu til Íslands á síðasta ári, en því er spáð að þeir verði a.m.k. 130.000 í ár. Kínversku flugfélögin Tianjin og Juneyao Air áforma að hefja flug til Íslands á árinu, með viðkomu í Helsinki.

Vinsældir Íslands munu aukast
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, sagði nauðsyn þess að halda fund sem þennan brýna, meðal annars vegna stöðugrar fjölgunar kínverskra ferðamanna og hörmulegs slyss fyrr í mánuðinum, þar sem tveir kínverskir ferðamenn urðu úti. Jin vakti athygli á að kínverska millistéttin teldi nú um 400 milljónir manna. Af þeim hafa um 200 milljónir vegabréf. Því væri spáð að árið 2030 yrðu Kínverjar, sem ferðuðust út fyrir landsteinana, 260 milljónir. Kínverjar eyddu nú þegar um fimmtungi alls þess fjár sem ferðamenn eyða á heimsvísu.

Sendiherrann sagði að Norður-Evrópa væri að sækja í sig veðrið sem áfangastaður kínverskra ferðamanna, en þeir heimsækja oft mörg lönd í sömu ferð. Það ætti ekki síst við um þá sem færu í annað sinn til útlanda. Ísland yrði áreiðanlega vinsælli áfangastaður Kínverja á næstu árum vegna einstaks landslags og upplifunar.

Jin Zhijian, sendiherra Kína, var framsögumaður á fundinum. Til hægri eru tveir stjórnarmenn í ÍKV, þeir Einar Rúnar Magnússon og Ársæll Harðarson, en sá síðarnefndi hafði einnig framsögu.

Norður-Evrópuríki vinni saman
Thea Hammerskov, forstöðumaður viðskiptatengsla hjá ferðamálastofu Kaupmannahafnar, Visit Copenhagen, útskýrði hvernig ferðaþjónustan í borginni hefði brugðist við mikilli fjölgun kínverskra ferðamanna. Gistinóttum Kínverja í Kaupmannahöfn hefði fjölgað um 344% á tíu árum. 84% Kínverja sem sæktu borgina heim ferðuðust einnig til annarra norrænna ríkja og þannig kæmu margir kínverskir ferðamenn til Kaupmannahafnar frá Íslandi eða ferðuðust hingað til lands eftir Danmerkurheimsókn. Hammerskov sagði að í ljósi þess að Kínverjar litu gjarnan á Norður-Evrópu sem einn áfangastað, væri eðlilegt að Norður-Evrópuríkin ynnu saman að því að bæta upplifun kínverskra ferðamanna af heimsókn sinni.

Hammerskov fjallaði um Chinavia-verkefnið, sem er samstarfsverkefni nokkurra norrænna ferðamálaráða um betri móttöku kínverskra ferðamanna. Verkefnið gengur meðal annars út á bætta upplýsingamiðlun til kínverskra ferðamanna með skiltum, bæklingum og í gegnum kínverska samfélagsmiðla á borð við Weibo og Wechat, að koma ábendingum um öryggi ferðamanna á framfæri og halda námskeið um kínverska menningu til að bæta gagnkvæman skilning. Hammerskov nefndi að verslanir og önnur fyrirtæki sem taka á móti kínverskum viðskiptavinum þyrftu nauðsynlega að bjóða upp á margvíslega möguleika til að borga með farsíma, enda hvetti það Kínverja til kaupa á vörum og þjónustu.

Jónína Bjartmarz, formaður ÍKV og fundarstjóri ásamt frummælendunum Theu Hammerskov og Grace – Jin Liu.

Tökum ekki vel á móti Kínverjum 
Ársæll Harðarson, svæðisstjóri Icelandair í Asíu, sagði að vöxtur og þróun í Kína ætti varla sinn líka og það myndi hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu í heiminum. Ekkert land í heiminum hefði gefið út fleiri vegabréf en Kína. Því væri spáð að um 25% allra ferðalaga í heiminum yrðu á vegum Kínverja. Hlutdeild Kínverja í heildarfjölda ferðamanna hér á landi hefði vaxið hratt, væri nú 5-6% og Kína í 6. sæti yfir þau lönd þaðan sem flestir ferðamenn koma. Vissulega kæmu hingað enn margfalt fleiri ferðamenn t.d. frá Norður-Ameríku. „En Kína er kannski svo mikið frábrugðið því sem við erum að gera dags daglega með öðrum löndum, að við verðum að taka það alvarlega,“ sagði Ársæll. „Og við erum satt best að segja ekki að gera þetta neitt mjög vel núna. Við getum bætt okkur mjög mikið. Sumir eru að gera vel, aðrir aðeins verr og sumir eru bara að gera þetta mjög illa. Og þess vegna erum við hér, við viljum læra hvert af öðru.“

Ársæll nefndi nokkur dæmi um að kínverskum ferðamönnum fyndust þeir ekki velkomnir; til dæmis að ekki eitt skilti á kínversku væri í Leifsstöð, upplýsingar um húsreglur vantaði á hótelum, greiðsluleiðir væru ekki sniðnar að þörfum þeirra og fleira slíkt.

Menningarmunur veldur misskilningi og núningi
Leiðsögumaðurinn Grace – Jin Liu fjallaði um menningarmun Íslands og Kína, sem oft veldur misskilningi og núningi í samskiptum. Hún benti á að öllum þjóðum þættu eigin siðir og venjur byggjast á heilbrigðri skynsemi og skildu oft ekkert í því að fólk af öðru þjóðerni gerði hlutina öðruvísi. Hún sagði að Kínverjum fyndist þeir oft ekki velkomnir á Íslandi, til dæmis vegna þess að á alþjóðaflugvellinum í Keflavík væri engar leiðbeiningar á kínversku að hafa. Á hótelum og veitingahúsum væri þjónustan oft öðruvísi en Kínverjar ættu að venjast; þeir væru til dæmis ekki vanir að fara sjálfir með töskurnar sínar inn á hótelherbergi. Á gististöðum vantaði upplýsingar um húsreglur á borð við reykingabann og viðurlög við því, að ekki sé gert ráð fyrir að skipta um handklæði eða rúmföt daglega o.s.frv.

ÍKV kynnti starfsemi sína á fundinum. Bjarndís Lárusdóttir, skrifstofustjóri FA, veitti upplýsingar um ráðið og skráði nýja félagsmenn.

Á veitingahúsum vantar að sögn Grace oft upp á skilning á því að Kínverjar vilja ekki kalt vatn, heldur drekka það volgt eða heitt. Íslendingar teldu sig oft vera að bjóða upp á bestu bitana með beinlausu kjöti eins og kjúklingabringum eða lambafilé, en Kínverjar kysu fremur kjöt á beini, t.d. kjúklingaleggi eða kótelettur. Kínverjar væru vanir því að vera sérstaklega boðnir velkomnir í verslunum, sérstaklega þeim sem seldu dýran varning. Vandræði í greiðslumiðlun væru algeng og færi oft mikill tími í að reyna að finna út úr því, sem iðulega endaði með því að viðkomandi verslun missti af viðskiptunum.

Á upptökunni hér að neðan kemur fram mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, verslun og þjónustu sem vilja taka betur á móti kínverskum ferðamönnum.

 

Hér að neðan má nálgast glærur frummælenda á pdf-sniði:

Hvaða þjónustu sinnir sendiráðið fyrir kínverska ferðamenn?
-Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi

Hvað er Chinavia fræðsluefnið og hvernig gagnast það íslenskum fyrirtækjum?
-Thea Hammerskov, forstöðumaður viðskiptatengsla Visit Copenhagen

Hvernig virkar markaðssetning í Kína m.t.t. menningar og tækni?
-Ársæll Harðarson, svæðisstjóri Icelandair í Asíu

Hvernig skynja kínverskir ferðamenn Ísland?
-Grace – Jin Liu, leiðsögumaður

Síðar sama dag stóð Ferðamálastofa fyrir námskeiði um móttöku kínverskra ferðamanna. Í upptökunni hér að neðan er ekki síður mikið af gagnlegum ábendingum og upplýsingum.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning