Markmið Evrópustefnu langt frá því að nást

14.04.2015

Drapeaux européens devant le BerlaymontÍslensk stjórnvöld eru langt frá því að ná markmiðum Evrópustefnu sinnar frá því í mars í fyrra, samkvæmt nýju frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem birt var í dag.

Í Evrópustefnunni var eitt af fjórum meginmarkmiðum að innleiðingarhalla Íslands, þ.e. því hlutfalli EES-laga og -reglna, sem ekki næst að innleiða á réttum tíma, yrði náð úr 3,1% í fyrra niður í undir 1% á fyrrihluta þessa árs. Niðurstaðan í lok nóvember á síðasta ári er að innleiðingarhallinn er 2,8% og stendur Ísland sig verst allra EES-ríkja í innleiðingu nýrra reglna.

Annað markmið stefnunnar var að ekkert mál yrði fyrir EFTA-dómstólnum nú á fyrri hluta ársins 2015 vegna tafa á innleiðingu EES-reglna. „… þau reyndust 13 talsins og hafa aldrei verið fleiri,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður í ESA í fréttatilkynningu stofnunarinnar.

Félag atvinnurekenda birti í síðustu viku samantekt sem sýndi að Ísland hefur verið dregið fyrir EFTA-dómstólinn vegna ellefu mála eftir að Evrópustefnan var samþykkt.

„Það er mikið hagsmunamál fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur að sömu reglur gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Evrópustefnan er alls góðs makleg, en henni hafa ekki fylgt fjárveitingar til að hrinda henni í framkvæmd. Stjórnvöld verða að taka sig á í þessum efnum.“

Frammistöðumat ESA

Nýjar fréttir

Innskráning