MAST gefur út leiðbeiningar um merkingar á matvælum með breyttu innihaldi vegna stríðsins í Úkraínu

12.04.2022

Innflytjendur matvæla hafa á undanförnum vikum fengið fjölda tilkynninga frá erlendum birgjum um breytt innihald matvöru sökum skorts á vissum hráefnum vegna stríðsins í Úkraínu. Einkum er það sólblómaolía og sólblómalesitín, sem eru mikilvægar útflutningsvörur Úkraínu, sem illa hefur gengið að útvega. Af þessum sökum hafa margir matvælaframleiðendur þurft að breyta uppskriftum með skömmum fyrirvara, sem þýðir að innihaldsefni vörunnar eru ekki í samræmi við innihaldslýsingu á forprentuðum umbúðum.

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu hafa beitt sér fyrir því við matvælaráðuneytið og Matvælastofnun (MAST) að gefin yrði undanþága frá reglum um merkingar innihaldsefna á umbúðum af þessum sökum. Stjórnvöld hafa nú brugðist við og hefur MAST gefið út leiðbeiningar fyrir matvælafyrirtæki.

Þær kveða á um að tímabundið, á meðan ástandið varir,  sé mögulegt fyrir matvælafyrirtæki sem verða fyrir skorti á hráefnum vegna stríðsins í Úkraínu að nota áfram forprentaðar umbúðir að nokkrum skilyrðum uppfylltum:

  • Að kröfur varðandi ofnæmis- og óþolsvalda séu alltaf virtar svo ekki skapist hætta fyrir neytendur
  • Að framleiðendur séu sannarlega að verða fyrir skorti á hráefnum vegna stríðsins og geti ekki fengið sama hráefni annars staðar frá.
  • Ef útskipti hráefnis hafa veruleg áhrif á umrædd matvæli og/eða ef óerfðabreyttum hráefnum er skipt út fyrir erfðabreytt, verða framleiðendur að upplýsa neytendur á einhvern hátt um það s.s. með skiltum í verslunum eða annars konar upplýsingagjöf, t.d. á heimasíðu eða samfélagsmiðlum auk þess að upplýsa sinn eftirlitsaðila (Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirlit) um það.

Eftir sem áður eru matvælafyrirtæki ábyrg fyrir því að öll hráefni sem notuð eru við framleiðslu matvæla uppfylli almennar kröfur matvælalöggjafar s.s. um öryggi og efnainnihald og að rekjanleiki sé ávallt tryggður.

MAST hefur að beiðni FA einnig birt reglurnar á ensku, en nokkuð hefur verið um að erlendir birgjar kalli eftir upplýsingum um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við ástandinu.

Nýjar fréttir

Innskráning