MAST hafnar því að votta innflutning – vörur fyrir tugi milljóna liggja undir skemmdum

02.06.2015

IMG_3987Matvælastofnun hefur hafnað erindi Innness ehf. um að stofnunin sinni þeirri lagaskyldu sinni að votta innflutning á búvörum  frá EES-ríkjum. Því er ljóst að áfram munu tugir tonna af innfluttum mat liggja undir skemmdum á hafnarbakkanum vegna verkfalls opinberra starfsmanna, með tilheyrandi tjóni fyrir innflytjendur og óþægindum fyrir almenna neytendur. Innflutningur á kjöti, ostum, hunangi og jafnvel kartöflum hefur stöðvast vegna verkfallsins.

Lögmaður Innness, Páll Rúnar M. Kristjánsson, hefur fært rök fyrir því í erindum til stofnunarinnar að MAST geti vottað innflutning þrátt fyrir verkfall dýralækna, enda sé annars vegar engin krafa um að dýralæknar stimpli vottorð sem gefin eru út af öðrum dýralæknum í útflutningsríkjnum og hins vegar geti yfirmenn stofnunarinnar, forstjóri og yfirdýralæknir, gengið í störf undirmanna sinna til að bjarga verðmætum.

Í svarbréfi MAST kemur fram það álit stofnunarinnar að ekki sé heimilt eða mögulegt að leita til annarra starfsmanna en dýralækna til að sinna þessu verkefni. Yfirdýralæknir sé ekki yfirmaður starfsmanna inn- og útflutningsskrifstofu stofnunarinnar, sem séu í verkfalli. Þá sé hann í sama stéttarfélagi og aðrir dýralæknar hjá stofnuninni. Forstjóri stofnuinarinnar geti ekki gengið í störf allra þeirra tæplega sextíu starfsmanna sem séu í verkfalli eða sett sig inn í verkefni þeirra og störf.

Í bréfi MAST kemur fram að stofnunin hafi í tvígang sótt um undanþágu til undanþágunefndar BHM og ríkisins vegna erindis Innness. Í bæði skiptin hafi erindinu verið hafnað.

Frekari tilraunir til að hafa áhrif á afstöðu stofnunarinnar, eftir að bréfið barst, hafa ekki borið árangur.

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, bendir á að fyrirtækið hafi þegar orðið fyrir tuga milljóna króna tjóni vegna þess að MAST hafi ekki vottað innflutning búvara. Enn frekara tjón sé fyrirsjáanlegt, enda liggi vörur undir skemmdum. Yfirmenn stofnunarinnar hefðu getað gengið í störf undirmanna sinna til að bjarga verðmætum. „Undanþágunefnd hefur breytt afstöðu sinni, þannig að nú er verið að auglýsa ferskan innlendan kjúkling í búðum. Á sama tíma er engin tilhliðrun fyrir innfluttar vörur. Við íhugum alvarlega að sækja á hendur stofnuninni okkar tjón vegna þessa máls,“ segir Magnús Óli.

Bréf MAST til lögmanns Innness

Umfjöllun um málið í RÚV

Viðtal við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA á Bylgjunni

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning