Matarskattur hækkaður á verðbólgutímum

08.09.2021

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 8. september 2021

Myndin sýnir hækkun útboðsgjaldsins frá jafnvægisútboðinu í júní 2020 og þar til í síðasta útboði 2021.

Undir lok síðasta árs samþykkti Alþingi lagabreytingu, sem sigldi undir fölsku flaggi Covid-aðgerðar. Frumvarpið gekk út á að vinda tímabundið ofan af breytingum á útboðum tollkvóta fyrir búvörur, sem höfðu verið gerðar til að stuðla að lækkun vöruverðs. Breytingin var réttlætt með því að innlend búvöruframleiðsla hefði fengið á sig högg vegna heimsfaraldursins og fækkunar ferðamanna. „Nauðsynlegt þykir að takmarka áhrif kórónuveirufaraldursins og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir,“ sagði í greinargerðinni.

Í alþjóðasamningum er samið um gagnkvæma tollkvóta, heimildir til að flytja inn tiltekið magn vöru tollfrjálst eða á lægri tolli en tollskráin tilgreinir. Í flestum ríkjum er slíkum tollkvótum úthlutað gjaldfrjálst enda markmið þeirra að efla hag neytenda með auknu vöruúrvali og lækkuðu verði. Á Íslandi er það hins vegar ekki svo. Frá upphafi hafa þessar heimildir verið seldar hæstbjóðanda og vegna þess að eftirspurn neytenda eftir innfluttum búvörum hefur verið mikil þróuðust mál þannig að gjaldið, sem innflytjendur buðust til að greiða fyrir innflutningskvótann, færðist sífellt nær hinum almenna tolli og var í sumum tilvikum orðið nánast jafnt honum. Verzlunin og neytendur urðu því smátt og smátt af kostum tollfrelsisins og vöruverðið leitaði upp á við með hækkandi útboðsgjaldi.

Kerfinu var breytt árið 2019 með því að taka upp svokölluð jafnvægisútboð. Við það tækifæri lét sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann hafa eftir sér að gamla kerfið hefði verið „bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda.“ Breytingin átti hins vegar að stuðla að því að ná markmiðum hinna alþjóðlegu samninga um lægra vöruverð og „koma ávinningnum sem skapast með úthlutun tollkvóta í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.“ Fyrsta og eina útboð tollkvóta með nýju aðferðinni, sem fram fór í júní 2020, skilaði umtalsverðri lækkun útboðsgjalds fyrir flestar innfluttar búvörur og þar með hagstæðara verði fyrir neytendur.

Ári síðar sneri sami ráðherra öllu á haus og gamla útboðskerfið var tekið upp á ný til 1. ágúst 2022. Áhrifin hafa komið í ljós í skrefum. Í lok ágúst birti atvinnuvegaráðuneytið niðurstöður síðasta tollkvótaútboðs og þar kemur í ljós að lagabreytingin hefur haft tilætluð áhrif – gríðarlegar hækkanir á útboðsgjaldinu í langflestum tilvikum. Þannig hefur útboðsgjald vegna nautakjöts hækkað um 64% og um 105% vegna lífrænt ræktaðs alifuglakjöts en langmesta hækkunin er á útboðsgjaldi fyrir skinku- og pylsukvóta, sem hefur meira en tuttugufaldast í báðum tilvikum. Í krónum talið er hækkunin á útboðsgjaldi minnst vegna svínakjöts og osta, eða 34 krónur á kíló, en í öðrum afurðum nemur hækkunin 117 til 234 krónum á kíló.

Það þarf ekki sprenglærðan sérfræðing til að sjá að þessi hækkun veldur að sjálfsögðu hækkun á verði hinna innfluttu vara og í skjóli hennar geta innlendir framleiðendur haldið uppi verðinu á sinni vöru. Niðurstaðan er hærra matarverð – enda var það ætlunin.

Samkvæmt dómum Hæstaréttar er útboðsgjaldið, sem innflytjendur greiða fyrir tollkvóta, skattur í skilningi stjórnarskrárinnar. Í stefnuskrám sumra flokkanna fyrir komandi kosningar má sjá fyrirheit um lækkun matarskatta – og stóðu þeir þó jafnvel sjálfir að þessari óumdeilanlegu hækkun á matarskatti. Aðrar aðferðir voru tiltækar til að styðja við innlenda búvöruframleiðendur vegna faraldursins, t.d. beinir styrkir og ívilnanir sem önnur fyrirtæki hafa notið og hefðu ekki hækkað vöruverð eða skekkt samkeppni.

Hækkun stjórnvalda á matarskatti er ámælisverð ekki sízt vegna þess að verðbólga á Íslandi er nú sú mesta í hartnær áratug. Tólf mánaða verðbólga er 4,3%, sem er 1,8% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Stjórnvöld beittu sér þannig meðvitað fyrir hækkunum vöruverðs einmitt þegar þau hefðu átt að grípa til aðgerða til að halda verðbólgu niðri.

Þetta mætti gjarnan vera á meðal umræðuefnanna í kosningabaráttunni.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning