Meðul fyrir lasið atvinnulíf

11.03.2020
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær. Skjáskot úr útsendingu Vísis.

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 11. mars 2020.

Heimsfaraldur COVID-19 veirunnar mun óhjákvæmilega hafa mikil og neikvæð áhrif á efnahagslíf heimsbyggðarinnar. Virðiskeðjur alþjóðahagkerfisins hafa þegar raskazt vegna þess að verksmiðjum og öðrum vinnustöðum víða um lönd hefur verið lokað eða dregið úr afköstum. Eftirspurn dregst saman af því að neytendur halda að sér höndum. Svartsýnni spár gera jafnvel ráð fyrir samdrætti heimsframleiðslunnar á þessu ári.

Búast má við að efnahagslegu áhrifin hér á landi verði mikil og að erfiðleikar séu framundan. Þær atvinnugreinar sem fá höggið fyrst eru þær sem stóðu hvað höllustum fæti eftir fall WOW Air og fækkun ferðamanna; ferðaþjónustan og veitingageirinn. Fjöldi fyrirtækja í þeim greinum sér fram á gífurlegt tekjutap. Áhrifin á aðra geira, sem þjónusta þessar atvinnugreinar, verða einnig mikil. Öll fyrirtæki í landinu geta gert ráð fyrir að verða fyrir einhverjum neikvæðum áhrifum.

Heimsfaraldurinn eykur enn á niðursveifluna í þjóðarbúskapnum og ætla má að draumurinn um mjúka lendingu sé úti. Rekstrarskilyrði margra fyrirtækja voru erfið fyrir. Þótt skynsamlegri lending hafi náðst í kjarasamningum í fyrravor en leit út fyrir í upphafi, hafa þeir reynzt mörgum fyrirtækjum þungir í skauti. Í könnun á meðal félagsmanna Félags atvinnurekenda í janúar kom fram að þriðjungur þeirra hefði þurft að segja upp fólki til að mæta hækkun launakostnaðar.

Stjórnvöld hafa haft í bígerð átak í uppbyggingu innviða til að örva efnahagslífið. Ljóst er að meira verður að koma til. Víða um heim skoða ríkisstjórnir nú hvaða tæki þær hafi á valdi sínu til að örva efnahagslífið og auðvelda fyrirtækjum að standa af sér áfallið. Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær kom fram skýr vilji til að greiða götu fyrirtækja við þessar fordæmalausu aðstæður, en útfærsluna vantar ennþá – kannski eðlilega. Enn hefur því engin raunveruleg aðgerðaáætlun litið dagsins ljós, en hún þyrfti að mati FA að innihalda eftirfarandi atriði:

  • Bæta lausafjárstöðu fjármálakerfisins. Mörg fyrirtæki munu þurfa lánafyrirgreiðslu til að fleyta sér í gegnum næstu vikur og mánuði. Seðlabankastjóri hefur boðað slíkar aðgerðir. Vaxtalækkanir Seðlabankans á undanförnum misserum hafa ekki skilað sér til fyrirtækjanna, meðal annars vegna aðhaldssamra krafna sem bankarnir þurfa að uppfylla. Það virðist einboðið að Seðlabankinn lækki vexti, dragi úr bindiskyldu og lækki kröfur um eigið fé fjármálastofnana. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði á blaðamannafundinum í gær að ríkissjóður gæti fljótlega lagt fjármálakerfinu til 30 milljarða innstæður, sem væri mikilvægt skref.
  • Flýta opinberum fjárfestingum í innviðum. Þetta er áætlun sem hefur verið í pípunum og þá horft til næstu þriggja ára. Brýna nauðsyn ber til að færa verkefni eins og kostur er fram á þetta ár. Hér erum við að tala um t.d. fjárfestingar í orkumannvirkjum, vegum, flugvöllum, byggingum heilbrigðis- og menntastofnana og innviðum fyrir orkuskipti.
  • Endurskoða skatta og gjöld fyrirtækja. Nú er rétti tíminn til að horfa gagnrýnum augum á ýmsa íþyngjandi skattlagningu ríkisins sem leggst þungt á atvinnulífið, til dæmis tryggingagjald, gistináttagjald, virðisaukaskatt, innflutnings- og vörugjöld. Lengri frestur á t.d. skilum virðisaukaskatts eða tímabundin niðurfelling gjalda sem fjármálaráðherrann nefndi í gær myndi að sjálfsögðu hjálpa, en það er ekki síður ástæða til að endurskoða til frambúðar gjaldtöku sem hefur dregið kraft úr fyrirtækjum. Lækkun gjalda yrði innspýting í atvinnulífið.
  • Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Sveitarfélögin verða að taka þátt í að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Innheimta fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði er löngu komin út úr öllu korti og er afar íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Nú er tíminn til að endurskoða þá gjaldtöku.
  • Gera sjúkratryggingum kleift að bæta launakostnað vegna starfsmanna í sóttkví. Ríkisstjórnin hefur boðað útfærslu á þessu atriði í lok vikunnar.

Stjórnvöld hafa staðið sig vel í að fást við heilbrigðisþátt heimsfaraldursins. Nú ríður mikið á að þau standi sig jafnvel í að fást við hinn efnahagslega þátt og beiti þeim meðulum sem duga.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning