Meira um landbúnað, samkeppni og tolla

09.12.2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 9. desember 2020

Grein sem ég skrifaði hér í blaðið sl. fimmtudag (Aðför að samkeppni, verzlun og neytendum) hefur kallað á athugasemdir frá nokkrum talsmönnum landbúnaðarins. Þau svör gera gott betur en að staðfesta það sem ég skrifaði um þrýsting hagsmunaafla á stjórnvöld að bregðast við búsifjum vegna kórónuveirufaraldursins með sértækum aðgerðum sem hygla einni atvinnugrein umfram allar aðrar. Greinarhöfundarnir eru sammála um að samkeppnishömlur og tollahækkanir séu þjóðráð.

Rétt er að halda nokkrum atriðum til haga í framhaldi af þessum skrifum.

Augljós hagur af tollasamningi

Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda, segir að tollasamningurinn við Evrópusambandið og nýtt útboðsfyrirkomulag á tollkvóta hafi rýrt afkomu bænda án þess að neytendur njóti þess í lægra verði. Ingvi gleymir að geta þess að svínabændur hafa sjálfir talsverð áhrif á verðlag á innfluttu svínakjöti; frá því að tollasamningurinn tók gildi hafa íslenzkir bændur og afurðastöðvar boðið hátt í ESB-tollkvóta og flutt inn 80-90% kvótans fyrir svínakjöt.

Ingvi hefur heldur ekki verið búinn að lesa nýja skýrslu Alþýðusambandsins um þróun verðlags á búvörum á árinu. Sú skýrsla var unnin samkvæmt samningi við atvinnuvegaráðuneytið og hafði að markmiði að fylgja eftir breytingum sem gerðar voru á úthlutun tollkvóta um áramót og ætlað var að myndu gagnast neytendum.

Niðurstöður ASÍ (sjá töflu) sýna að verð á innfluttum kjöt- og mjólkurvörum, þar sem ESB-tollkvótar hafa stækkað og er úthlutað með nýrri aðferð, hækkaði mun minna en 20% veiking krónunnar gagnvart evrunni gaf tilefni til og í sumum tilvikum minna en á innlendum vörum. Þetta þarf að skoðast í því samhengi að yfirleitt felst vörn fyrir innlenda framleiðslu í veikingu gengis, því að innfluttar vörur hækka þá í verði.

Innflutt grænmeti hækkar talsvert meira en kjöt- og mjólkurvörur og meira en innlent grænmeti. Það skýrist annars vegar af gengisveikingu og hins vegar af hærra innkaupsverði vegna vandkvæða við tínslu, pökkun og flutninga grænmetis vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki hafa hins vegar orðið hagstæðar breytingar á tollum á grænmeti til mótvægis, heldur þvert á móti.

Er minni samkeppni hagur neytenda?

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir í sinni grein að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum hafi skilað mikilli hagræðingu, sem undanþága í kjötiðnaðinum myndi líka gera, í þágu neytenda. Hún spyr hvernig sé hægt að vera á móti því. Því er til að svara að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu, þegar atvinnuvegaráðuneytið bað hana að meta stöðuna á mjólkurmarkaði, að sameiningar afurðastöðva hefðu vissulega skilað hagræðingu, en þyngra vægi hagur neytenda af samkeppninni. Þess vegna lagði Hagfræðistofnun til að undanþágan yrði afnumin og tollar lækkaðir á mjólkurvörum til að efla samkeppni. Sama hefur Samkeppniseftirlitið gert, en sú stofnun fer ekki í neinar grafgötur um að undanþága kjötiðnaðarins væri hvorki í hag bænda né neytenda.

Framkvæmdastjóri LK og tveir Framsóknarþingmenn sem stungu niður penna vísuðu til undanþága landbúnaðar í ESB frá samkeppnisreglum vegna kórónuveirukreppunnar. Þar er um að ræða sex mánaða undanþágur fyrir mjólkur-, blóma- og kartöfluframleiðslu, sem háðar eru ströngum skilyrðum, svo sem að hamla ekki virkni innri markaðarins. Kröfur hagsmunaaðila um undanþágu kjötiðnaðarins frá samkeppnislögum ganga hins vegar út á að hún verði varanleg. Kröfur þeirra um hærri tolla myndu koma niður á viðskiptum á innri markaði EES. Þessu er því ekki saman að jafna.

Hvernig stuðningur við landbúnaðinn?

Rétt er að undirstrika að ekki er ágreiningur um að styðja skuli við hefðbundinn landbúnað á Íslandi. Hins vegar eru mismunandi skoðanir á formi stuðningsins. Þegar gerð síðustu búvörusamninga stóð fyrir dyrum sameinuðust samtök fyrirtækja í verzlun, Neytendasamtökin og ASÍ um tillögur sem gengu m.a. út á að tryggja rekstrargrundvöll landbúnaðarins, lækka matarverð, að styrkgreiðslur færðust frá markaðstruflandi búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi, að stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaðnum og lækka tolla.

Ekki er heldur neinn ágreiningur um að landbúnaðurinn eigi að fá stuðning stjórnvalda vegna kórónuveirukreppunnar eins og aðrar atvinnugreinar. Skoðanamunur t.d. Félags atvinnurekenda og hagsmunaaðila í landbúnaðinum liggur í því að við teljum að styðja eigi við atvinnulífið með almennum aðgerðum sem ekki hamla samkeppni. Rekstraraðilar í landbúnaði hafa þannig aðgang að styrkjum og lánum eins og fyrirtæki í öðrum greinum ef þeir uppfylla skilyrði sem fyrir þeim stuðningi eru sett, svo sem um tekjufall vegna heimsfaraldursins.

Minnkandi spurn eftir innlendum búvörum er fyrst og fremst vegna samdráttar á veitingahúsamarkaði. Það er alveg fráleitt að afleiðingin eigi að vera sú að stjórnvöld færi vandamálið frá landbúnaðinum yfir á verzlunina og sendi svo neytendum reikning í leiðinni í formi hærra matarverðs í búðunum – á sama tíma og tugir þúsunda þiggja atvinnuleysisbætur.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning