Tíu af tólf stærstu sveitarfélögum landsins hafa nú birt frumvörp til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020. Nokkur sveitarfélög lækka álögur á atvinnuhúsnæði.
Mesta lækkunin er á Akranesi, en þar er fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkaður um 11,4%, úr 1,5804% í 1,4% af fasteignamati. Það felur í sér raunlækkun skatttekna Akranesskaupstaðar af atvinnuhúsnæði, en bærinn er nú að hefja kynningu á nýju atvinnuhverfi og hyggst laða til sín fleiri fyrirtæki. Lítilsháttar lækkun er í Kópavogi, úr 1,5% í 1,49%. Í Mosfellsbæ er lögð til lækkun á álagningarprósentu atvinnuhúsnæðis úr 1,6% í 1,585% og jafnframt lækkun á vatns- og fráveitugjöldum. Þá er talsverð lækkun fasteignaskatta í Vestmannaeyjum, þar sem gert er ráð fyrir að hlutfall skatts á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,55%.
Reykjavík eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu með skattinn í toppi
Það vekur hins vegar athygli að Reykjavíkurborg, þar sem yfir helmingur af öllu verslunar- og skrifstofuhúsnæði landsins er staðsettur, sér enn eitt árið enga ástæðu til að lækka fasteignaskatta og innheimtir, eitt sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, hæsta lögleyfða fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði, 1,65% af fasteignamati. Hafnfirðingar hyggjast hyggjast halda fasteignaskatti óbreyttum í 1,4%, eftir umtalsverðar lækkanir síðustu ára. Í Garðabæ er lagt til í frumvarpi að fjárhagsáætlun að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði óbreyttur, 1,63%, en í forsendum fjárhagsáætlunarinnar kemur fram að taka eigi álagningarhlutfallið til skoðunar á milli umræðna í bæjarstjórn. Það var einnig gert í fyrra og varð niðurstaðan lítilsháttar lækkun á skattinum. Á Seltjarnarnesi er lagt til að skatthlutföll verði óbreytt á næsta ári, en þau eru þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu.
Akureyri lækkar á íbúðarhúsnæði, ekki á atvinnuhúsnæði
Fjarðabyggð hyggst jafnframt halda álögum á húsnæði óbreyttum á næsta ári. Á Akureyri er lögð til lítilsháttar lækkun á fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði, en engin lækkun á skatti á atvinnuhúsnæði.
FA hefur undanfarin ár skorað reglulega á sveitarfélögin að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði til að sporna gegn gífurlegum hækkunum á fasteignamati. Nú í haust tók félagið höndum saman við Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara um að gefa út slíka áskorun á sveitarfélögin. Þar var meðal annars bent á þá ábyrgð, sem sveitarfélögin bæru ásamt öðrum á efnahagsstöðugleika og að hækkanir á opinberum álögum yltu ekki út í verðlagið.
Samkeppnisstaða borgarinnar versnar hratt
„Við fögnum því að sjálfsögðu að þessi barátta ber árangur og erum sérstaklega ánægð með viðbrögð sveitarfélaga á borð við Akranes og Vestmannaeyjar, þar sem hækkunum fasteignamats er mætt með myndarlegri lækkun álagningarprósentu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Að sama skapi eru það vonbrigði að sum sveitarfélög sjái ekki ástæðu til að lækka fasteignaskatta. Sum vilja ekki sýna fyrirtækjum sömu sanngirni og eigendum íbúðarhúsnæðis. Óbilgirni stjórnenda Reykjavíkurborgar, sem halda fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögleyfðu hámarki og moka milljörðum í borgarsjóð vegna hækkana fasteignamats, er með hreinum ólíkindum. Samkeppnisstaða borgarinnar gagnvart ýmsum nágrannasveitarfélögum, sem vilja laða til sín fyrirtæki með hagstæðu skattaumhverfi, til dæmis Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Akranesi, fer hratt versnandi.“