Mikill ávinningur af stafrænum vöruupplýsingum

16.03.2021
Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA, einkum úr mat- og drykkjarvörugeiranum.

Mikill ávinningur er af því fyrir fyrirtæki í matvælageiranum að nýta sér Gagnalaug GS1 til að miðla stafrænum vöruupplýsingum. Þetta kom fram á félagsfundi FA, „Stafræn bylting í vöruupplýsingum“ sem haldinn var í morgun.

Endurmerkingar verði ekki nauðsynlegar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA greindi frá þeirri nýlegu þróun mála að stjórnvöld hyggjast heimila matvælafyrirtækjum að miðla lögbundnum upplýsingum um matvörur til neytenda með stafrænum hætti, t.d. með appi í snjallsíma. Reglugerðardrög um þessa breytingu, sem hafa verið birt í samráðsgátt, eru m.a. árangur af vinnu FA og fleiri samtaka í atvinnulífinu við að kynna stjórnvöldum möguleika stafrænna lausna við vörumerkingar. Með því að nýta stafræna miðlun verður ekki nauðsynlegt að endurmerkja vörur frá t.d. Bandaríkjunum eða Bretlandi sem fluttar eru inn til Íslands og sparar það innflutningsfyrirtækjum mikinn kostnað.

Ólafur fjallaði einnig um vaxandi kröfu neytenda um margvíslegar upplýsingar um vöru, sem rúmuðust illa á umbúðum, t.d. um uppruna, rekjanleika, vistspor, umhverfis- og gæðavottanir o.fl. Stafrænar lausnir auðvelda til muna aðgang neytenda að slíkum upplýsingum og framsetningu þeirra.

Jens Gunnarsson framkvæmdastjóri GS1 Ísland.

App þróað þegar nýjar reglur taka gildi
Jens Gunnarsson, framkvæmdastjóri GS1 Ísland, fjallaði um starfsemi fyrirtækisins, sem er í eigu FA, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins, Viðskiptaráðs Íslands og  Sambands íslenskra samvinnufélaga. GS1 Ísland hefur séð um að úthluta strikamerkjaauðkennum síðan árið 1984. Undanfarin ár hefur fyrirtækið staðið að þróun Gagnalaugar GS1, sem er alþjóðlegur, miðlægur og staðlaður grunnur með frumvörugögn. Gagnalaugin getur geymt upplýsingar um innihaldslýsingar, næringargildi og ofnæmisvalda, auk gnóttar annarra upplýsinga. Gagnalaugin nýtist í dag t.d. vefverslunum við að uppfylla Evrópureglur um vöruupplýsingar, en getur jafnframt nýst við stafrænar merkingar matvæla. GS1 bíður þess að reglur um að heimila stafræna miðlun upplýsinga um matvörur taki gildi, en hyggst þá þróa og taka í notkun app, sem birt getur upplýsingar um matvæli sem skráð hafa verið í Gagnalaugina. Neytandinn skannar þá strikamerki vörunnar og appið birtir upplýsingarnar.

Margvíslegur ávinningur
Andri Sigurðsson, vörustjóri Gagnalaugar, fjallaði um ferlið við innsetningu gagna í Gagnalaugina. Upplýsingar eru settar einu sinni inn í Gagnalaug og eiga að uppfærast að mestu leyti sjálfkrafa hjá öllum aðilum aðfangakeðjunnar sem nýta gögnin. 15 íslensk fyrirtæki eru nú skráð í Gagnalaugina en mörg fleiri eru væntanleg á næstunni. Um 4.000 vörur eru skráðar og yfir 1,6 milljónir virkar áskriftir að vöruupplýsingum.

Andri sagði margvíslegan ávinning af hagnýtingu Gagnalaugar. Hún yki sýnileika vara viðkomandi fyrirtækja á markaðnum. Breytingar á upplýsingum bærust hratt og með sjálfvirkum hætti. Vörugögn nýttust við innflutning og skil ættu að minnka vegna ófullnægjandi upplýsinga, t.d. þegar stærðir væru ónákvæmar, þyngd ekki rétt, eða strikamerki stemmdu ekki. Hægt væri að taka út vöruspjald beint úr Gagnalauginni. Myndir í miklum gæðum fylgja öllum vörum, sem auðveldar netverslun. Þá verða afturkallanir einfaldari og eru framkvæmdar af framleiðenda, en allir aðilar með áskrift að vörugögnum viðkomandi framleiðanda fengju þá tilkynningu um innköllun vörunnar.

Andri sagði að framleiðendur, heildsalar, flutningsaðilar og smásalar ættu þannig að njóta góðs af nýtingu Gagnalaugar.

Andri Sigurðsson og Sigurjón Stefánsson svara spurningum fundarmanna.

Viljum ekki að aðrir setji inn upplýsingar um okkar vörur
Sigurjón Stefánsson, stjórnarformaður GS1 og fyrrverandi yfirmaður tölvudeildar Sláturfélags Suðurlands, fór yfir vinnu fyrirtækisins við að koma upplýsingum um allar vörur sínar og dótturfyrirtækjanna Reykjagarðs og Hollt og gott inn í Gagnalaugina og sýndi dæmi af bæði framleiðsluvörum SS og vörum sem fyrirtækið flytur inn. Allar upplýsingar um vörur fyrirtækisins uppfærast einu sinni á sólarhring eða oftar og allir viðskiptamenn eiga þannig að geta gengið að því sem gefnu að þær séu réttar.

„Það er mikilvægt að upplýsingar um vörur séu skráðar af framleiðanda eða innflytjanda og þeir taki ábyrgð á þeim. Við viljum ekki að aðrir skrái upplýsingar um okkar vörur. Upplýsingar t.d. um ofnæmisvalda geta verið dauðans alvara og verða að vera réttar,“ sagði Sigurjón.

Hann benti á að útflytjendur matvæla yrðu varir við vaxandi kröfu viðskiptavina erlendis um að viðkomandi vörur væru skráðar í Gagnalaug, annars væru þær einfaldlega ekki teknar í sölu.

Sigurjón sagði að það hefði komið á óvart hvað sumir erlendir birgjar SS væru komnir stutt í stafrænni miðlun vörugagna.  Talsverðar umræður urðu meðal félagsmanna á fundinum um það atriði og ábyrgð og kostnað sem því fylgdi fyrir innflytjendur að skrá upplýsingar um vörur sem framleiðendur hefðu ekki sjálfir skráð í Gagnalaug. Þá var rætt talsvert um hver tæki ábyrgð á upplýsingunum í þeim tilvikum sem þarf að þýða upplýsingar yfir á íslensku.

Glærur Ólafs
Glærur Jens
Glærur Andra

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning