Miklar hækkanir og rangir hvatar í gjaldskrá Sorpu

19.08.2024

Félag atvinnurekenda hefur sent Sorpu bs. erindi vegna mikilla hækkana á gjaldskrá byggðasamlagsins fyrir móttöku á matvælum í umbúðum, sem notuð eru til jarðgerðar. Gjald fyrir móttöku á slíkum úrgangi hefur hækkað um rúmlega 86% frá því á fyrri hluta síðasta árs og er nú enginn munur á gjaldtöku fyrir mótttöku á matvælum og óflokkuðum úrgangi. FA óskar eftir rökstuðningi fyrir hækkuninni og bendir á að nú sé enginn fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki að taka umhverfis- og loftslagsvænni kostinn og skila útrunnum matvælum í umbúðum inn til jarðgerðar. Það á sérstaklega við vegna þess að keppinautur Sorpu býður umtalsvert lægra gjald fyrir móttöku á almennu sorpi til brennslu.

Á línuritinu hér að neðan má sjá breytingar á gjaldskrá Sorpu fyrir móttöku á óflokkuðum úrgangi til brennslu annars vegar og matvælum í umbúðum hins vegar. Eins og sjá má tekur gjaldið fyrir móttöku á matvælum gríðarlegt stökk um síðustu áramót, en þá hækkaði það um 70% á einu bretti, og er nú það sama og fyrir óflokkaðan úrgang. Í tilkynningu um gjaldskrárbreytingar Sorpu í ársbyrjun er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir þessari gífurlegu hækkun og fer FA fram á að byggðasamlagið rökstyðji hækkunina og tilgreini þá kostnaðarliði sem liggja að baki.

Gjald fyrir móttöku matvæla í umbúðum til jarðgerðar var í byrjun síðasta árs 37,4% lægra en gjald fyrir móttöku óflokkaðs úrgangs til brennslu en hefur frá áramótum verið það sama. FA bendir í erindi sínu á að þessi breyting dragi augljóslega úr hvata fyrirtækja til að taka umhverfis- og loftslagsvænni kostinn og koma útrunnum matvælum í jarðgerð.

Hér ber líka að líta til þess að Sorpa starfar ekki ein á sorpmarkaðnum og keppinautur fyrirtækisins, Íslenska gámafélagið, tekur mun lægra gjald fyrir móttöku á almennu sorpi. Í byrjun síðasta árs var gjald fyrir móttöku matvæla í umbúðum hjá Sorpu tæplega 15% lægra en ef úrganginum var skilað óflokkuðum til brennslu hjá ÍG. Eftir síðustu gjaldskrárbreytingar er umrætt gjald hjá Sorpu hins vegar 44,45% hærra en gjaldskrá almenns sorps hjá ÍG.

Raunar vekur það athygli FA að á þessum tíma, þ.e. frá ársbyrjun 2023, hefur gjald fyrir móttöku óflokkaðs sorps hjá Sorpu hækkað um 16,54%, en á sama tíma hefur gjald fyrir almennt sorp hjá ÍG hækkað um innan við 10%.

FA hvetur Sorpu til að gera breytingar á gjaldskrá sinni sem veita fyrirtækjum hvata til að velja umhverfis- og loftslagsvænni kosti við meðhöndlun úrgangs.

Erindi FA til Sorpu bs

Nýjar fréttir

Innskráning