Miklar hækkanir á útboðsgjaldi fyrir tollkvóta þrýsta á verðlag

26.01.2022

Útboðsgjald á ýmsum innfluttum búvörum frá ríkjum Evrópusambandsins hækkaði skarpt í síðasta útboði tollkvóta. Samkvæmt niðurstöðum útboðsins, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt, hækkar gjald sem innflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja inn kíló af svínakjöti án tolla þannig um tæplega 29% frá síðasta útboði. Gjald fyrir kíló af tollkvóta fyrir þurrkaðar og reyktar skinkur hækkar um rúmlega 51% og gjald fyrir pylsukvóta hækkar um tæplega 25%. Þessar hækkanir bætast við hækkanir á afurðaverði á heimsmarkaði og eiga sinn þátt í þrýstingi á verðlag þessa dagana.

Hækkanir á útboðsgjaldi undanfarin misseri eru meðal annars til komnar vegna umdeildrar lagabreytingar, sem gerð var á Alþingi í árslok 2020. Þá var horfið frá svokölluðu jafnvægisútboði og tekin upp tímabundið eldri aðferð við útboð tollkvóta til að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. Í töflunni og grafinu hér að neðan má sjá hvernig útboðsgjaldið hefur þróast eftir að eldri útboðsaðferðin var tekin upp á nýjan leik. Mikil hækkun hefur orðið á gjaldinu sem þarf að greiða fyrir tollkvóta í öllum vörum nema osti, þar sem hækkunin nemur rúmlega 5%. Í öðrum tilvikum er hækkun gjaldsins frá því að vera tæplega 53% í tilviki svínakjöts og upp í að vera 37-földun í tilviki þurrkaðra og reyktra skinkna.

Yfirlýstur tilgangur þess að taka upp jafnvægisútboð á sínum tíma var að lækka kostnað vegna útboða tollkvóta og lét Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa eftir sér að eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta hefði verið „bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda.“

Sami ráðherra beitti sér svo fyrir því að eldra fyrirkomulagið var tekið upp tímabundið (þar til í lok ágúst næstkomandi) með þeim rökum að vernda þyrfti innlenda framleiðendur vegna áfalla af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

„Lagabreytingin náði tilætluðum árangri, að hækka verulega verð á innfluttri vöru og veita þar með innlendum framleiðendum búvara skjól fyrir samkeppni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Stjórnvöld virðast hins vegar ekki hafa tekið með í reikninginn að þau væru meðvitað að stuðla að hækkun á matvöruverði, á sama tíma og gífurlegur þrýstingur er á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e. vegna hækkana á margvíslegum vörum á heimsmarkaði, þar með töldum búvörum. Þetta skýtur afskaplega skökku við, nú þegar stjórnvöld ættu að leita allra ráða til að vinna gegn verðhækkunum.“

 

Nýjar fréttir

Innskráning