Miklir hagsmunir undir í Atlantsolíumálinu

01.10.2015

Oliubilar AtlantsolíuMál Atlantsolíu gegn Landsbankanum vegna gengisláns verður endurflutt fyrir Hæstarétti kl. 13 í dag. Málið snýst um hvort nógu lítill aðstöðumunur hafi verið á milli fyrirtækisins og bankans til að bankinn geti krafið Atlantsolíu um viðbótarvexti af láninu. Málið var flutt fyrir Hæstarétti 10. september en er nú endurflutt að beiðni réttarins, sem hefur fjölgað dómurum úr þremur í fimm. Það er til marks um að Hæstiréttur telji málið mikilvægt – sem er skiljanlegt, þar sem úrslit þess geta haft gríðarleg áhrif á mikla fjárhagslega hagsmuni margra íslenskra fyrirtækja.

Gildir fullnaðarkvittanareglan?
Hagar hf. áttu í sambærilegu máli fyrir Hæstarétti árið 2013. Dómurinn dæmdi þar Arion banka í vil og komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að krefja Haga um viðbótarvexti þar sem ekki hefði verið nægur aðstöðumunur milli Haga og bankans, meðal annars vegna stærðar fyrirtækisins og sérfræðiþekkingar. Þess vegna mætti bankinn krefja fyrirtækið um vexti sem næmu mismuninum á allt að 21% seðlabankavöxtum annars vegar og samningsvöxtum hins vegar. „Í því samhengi verður ekki litið svo á að viðbótarkrafa stefnda, sem áfrýjandi hefur í raun þegar greitt, hafi valdið röskun á fjárhagslegri stöðu hans þannig að jafna megi til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir,“ segir í dómi Hæstaréttar í máli Haga og Arion banka.

Bankarnir hafa sumir hverjir síðan túlkað þennan dóm með afar hæpnum hætti þannig að hann ætti við um öll fyrirtæki yfir tilteknum stærðarmörkum, burtséð frá eðli starfseminnar. Dómar hafa fallið í héraðsdómi sem styðja þann skilning. Þeir hafa verið mjög umdeildir. Fá fyrirtæki kannast við annað en að mikill aðstöðumunur sé á milli þeirra og fjármálafyrirtækja, enda miðar regluverk um fjármálafyrirtæki í raun að því að sá aðstöðumunur sé fyrir hendi. Hæstiréttur hefur hins vegar ekki fengið sambærilegt mál til meðferðar eftir að dómur féll í Hagamálinu.

Mál Atlantsolíu verður þess vegna fordæmisgefandi fyrir stöðu fjölmargra fyrirtækja á Íslandi. Verði Atlantsolía talið of stórt fyrirtæki til að það fái viðbótarvextina endurgreidda getur það haft í för með sér tuga milljarða útgjöld fyrir íslensk fyrirtæki sem að mati bankanna eru nógu stór til að teljast ekki í aðstöðumun gagnvart þeim. Forsvarsmenn fjölda fyrirtækja bíða þess í ofvæni að sjá hvar og hvernig Hæstiréttur dragi línuna um skilgreiningu á fyrirtækjum sem fullnaðarkvittanareglan gildir ekki um.

Hvert er umfang gengislána í ágreiningi?
Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda fyrr á árinu voru gengislán upp á um 547 milljarða króna enn í ágreiningi í byrjun ársins. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) báru brigður á þessa tölu og segja lán í ágreiningi nær 100 milljörðum. Ekki voru þó lögð fram nein gögn frá bönkunum sem staðfesta þá fullyrðingu. Vonir um að umræða FA um þessi mál yrði til þess að auka upplýsingagjöf um stöðu gengislánanna af hálfu stóru viðskiptabankanna urðu að engu í byrjun sumars þegar fjármálaráðuneytið birti svar sitt við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns um stöðu gengislánanna. Bankarnir neituðu allir að gefa þær upplýsingar sem ráðuneytið fór fram á fyrir hönd Alþingis.

Málflutningur í máli Atlantsolíu gegn Landsbankanum hefst í Hæstarétti kl. 13 í dag.

Nánari upplýsingar veita Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í síma 669 1218, og Guðmundur Kjærnested, einn eigenda Atlantsolíu, í síma +1 917 941 2248.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning