Minni þjónusta þýðir hærra verð að mati Póstsins

30.08.2018
Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson

Íslandspóstur fækkaði í byrjun ársins dreifingardögum í þéttbýli um helming og dreifir pósti nú að jafnaði annan hvern dag. Að mati Póstsins þýðir þessi þjónustuskerðing og hagræðið sem af henni leiðir að gjaldskrá fyrirtækisins í einkarétti þurfi að hækka um 8%! Félag atvinnurekenda gagnrýnir þessa tillögu Íslandspósts í fjölmiðlum í dag.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) heimilaði Íslandspósti í byrjun árs að fækka dreifingardögum, en hafnaði því að gjaldskrá fyrir einkaréttarpóst (bréf undir 50 grömmum) yrði óbreytt. Í ákvörðun nr. 2/2018 segir: „PFS telur að það hagræði sem ÍSP telur að verði við breytingarnar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem við á hverju sinni.“  Í ákvörðunarorðum á bls. 21 segir: „Vegna fækkunar dreifingardaga skal Íslandspóstur ohf. endurskoða gjaldskrá innan einkaréttar eigi síðar en 1. júní 2018.“

Engin tillaga að endurskoðaðri gjaldskrá barst PFS fyrir 1. júní. Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt að gjaldskráin skuli ekki hafa verið endurskoðuð á tilsettum tíma. Hinn 22. júní barst stofnuninni hins vegar tillaga Íslandspósts að 8% hækkun gjaldskrár, í framhaldi af framangreindri skerðingu á þjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú birt þá tillögu á vef sínum en ekki fallist á hana enn sem komið er.  Óskar PFS eftir athugasemdum hagsmunaaðila fyrir 15. september næstkomandi.

Rekstrarhagfræði sem enginn skilur
Fjallað er um þetta mál í Morgunblaðinu og á vef Fréttablaðsins í dag. „Við höfum lengi gagnrýnt Íslandspóst fyrir að sýna ekki fram á það með óyggjandi hætti að ekki sé verið að nota hagnað af einkaréttarþjónustunni til þess að niðurgreiða samkeppnisrekstur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, við Morgunblaðið. Ólafur segir PFS hafa fallist á fækkun útburðardaga með því skilyrði að hagræði af samdrætti í þjónustu skili sér til viðskiptavinanna. Því komi honum á óvart að verðið hækki en þjónustan minnki.

„Félagsmenn okkar og allur almenningur í landinu eru að greiða póstútburðargjöld. Gjaldskrá Íslandspóst í einkarétti hækkar stöðugt og hefur tekið gríðarlegum hækkunum á undanförnum árum. Á sama tíma hækkar gjaldskrá fyrirtækisins í samkeppnisrekstri lítið sem ekkert, þrátt fyrir að kostnaðarliðirnir séu iðulega þeir sömu. Þetta er rekstrarhagfræði sem enginn skilur,“ segir Ólafur.

Umfjöllun á mbl.is

Umfjöllun á frettabladid.is 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning