Mjólkum samkeppnina

28.02.2018

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 28. febrúar 2018.

Alþýðusamband Íslands vakti fyrir skömmu athygli á því að undanfarin tvö ár hefðu mjólkurvörur hækkað í verði á sama tíma og flest önnur matvara lækkaði í verði. Þannig hefur matvöruverð í heild lækkað um 0,7% á tveimur árum, fyrst og fremst vegna styrkingar krónunnar, en mjólkurvörurnar hækkuðu um 7,4%.

„Þetta skýrist af því að lítil eða engin samkeppni er á Íslandi á mjólkurvörumarkaði og því svigrúm til hækkana þrátt fyrir ytri aðstæður eins og gengisstyrkingu,“ sagði í tilkynningu ASÍ.

Einokun innanlands, girt fyrir erlenda samkeppni
Þetta er því miður hárrétt greining hjá Alþýðusambandinu. Stjórnvöld hafa búið þannig um hnúta að undanfarna áratugi hefur samkeppni í rauninni minnkað á mjólkurmarkaði, með því að mjólkuriðnaðurinn fékk undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga um samráð, samruna og verðtilfærslu. Samkeppniseftirlitið fékk ekki rönd við reist þegar flestum mjólkurbúum landsins var slegið saman í eina samsteypu, Mjólkursamsöluna. MS og Kaupfélag Skagfirðinga sitja nú saman að nánast öllum markaðnum og hafa með sér náið samráð og samstarf, sem í öðrum geirum atvinnulífsins væri ólöglegt og í sumum tilvikum refsivert.

Um leið og einni samsteypu hafa þannig verið tryggð yfirráð á mjólkurmarkaðnum hafa stjórnvöld viðhaldið gríðarlega háum tollum á mjólkurvörur, sem gera að verkum að erlend samkeppni við innlendan mjólkuriðnað er sáralítil. Við slíkar aðstæður hefur mjólkuriðnaðurinn engan hvata til að leita hagræðingar og lækka verð eins og aðrar innlendar framleiðslugreinar hafa þurft að gera til að mæta lækkandi verði á innflutningi vegna gengisstyrkingarinnar.

Nýlegt svar Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, á Alþingi staðfestir þá þróun sem Alþýðusambandið vekur athygli á. Þar eru birtar tölur um verðþróun mjólkurvara 2004-2015. Eftir að hafa lækkað framan af tímabilinu hafa mjólkurvörur hækkað verulega í verði síðustu ár; umfram vísitölu neyzluverðs, umfram aðra matvöru, langt umfram aðra drykkjarvöru og umtalsvert meira en aðrar innlendar búvörur, þ.e. kjötvörur þar sem samkeppni á milli framleiðenda er talsverð.

Samkeppnin sem ekki kom
Í svarinu er rakið að undanþága mjólkuriðnaðarins frá ákvæðum samkeppnislaga hafi upphaflega verið hugsuð til að ná fram hagræðingu og bregðast við fyrirsjáanlegri samkeppni vegna tollalækkana á alþjóðavettvangi. Það hefur hins vegar láðst að geta þess í svarinu að sú þróun gekk alls ekki eftir. Doha-viðræðulota Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tollalækkanir og takmarkanir á ríkisstuðningi við landbúnað fór út um þúfur og íslenzku ofurtollarnir á búvörur hafa lifað góðu lífi. Eina breytingin varðandi tolla á mjólkurvörur varð þegar Ísland samdi við Evrópusambandið árið 2007 um afar takmarkaða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir ost. Íslenzk stjórnvöld hafa séð til þess að þær innflutningsheimildir verði ekki of hagstæðar fyrir neytendur með því að bjóða þær upp og innheimta útboðsgjald af innflytjendum.

Þannig hefur orðið til afar óheppileg staða; búinn var til einokunarrisi til að mæta erlendri samkeppni sem kom ekki. Þrátt fyrir það hafa stjórnvöld ekki reynt að ýta undir samkeppni á mjólkurmarkaði síðustu ár; þau hafa þvert á móti unnið gegn henni. Í búvörusamningunum sem þáverandi landbúnaðarráðherra gerði við Bændasamtök Íslands 2016 voru ákvæði sem eru fallin til að festa enn frekar í sessi einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar og tengdra fyrirtækja og undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Þá fólst í búvörusamningunum að ríkið samdi við einkaaðila, þ.e. Bændasamtökin, um að hækka skatta á keppinautum hans, innflytjendum matvöru, með því að hækka duglega tolla á innfluttum mjólkurvörum. Þetta hljómar eins og skáldskapur en er engu að síður staðreynd.

Talsmenn mjólkuriðnaðarins kveinka sér stundum undan því að samkeppni frá innflutningi hafi aukizt að undanförnu. Vissulega er það rétt að innflutningur mjólkurvara jókst talsvert síðastliðið ár, aðallega vegna tilkomu Costco, sem í krafti fjárhagslegs styrks hefur treyst sér til að flytja inn búvörur á fullum tollum og hafa af þeim sáralitla framlegð. Engu að síður kemur fram í svari landbúnaðarráðherra að þrátt fyrir aukinn innflutning er innflutningur á öllum tegundum mjólkurvara fyrir almennan neytendamarkað innan við 1% af innanlandsframleiðslu, nema á ostum þar sem innflutningurinn nemur 8%. Það er nú öll ógnin. Kannski ræður þessi mjög svo takmarkaði innflutningur á ostum þó einhverju um að þeir eru sá flokkur mjólkurvara sem hefur hækkað minnst í verði umfram almennt verðlag og aðrar vörur.

Ekkert gert með umbótatillögur
Talsmenn mjólkuriðnaðarins og landbúnaðarráðherrar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa verið duglegir að vitna í fáeinar málsgreinar í skýrslu Hagfræðistofnunar um mjólkurmarkaðinn frá 2015, þar sem kom fram að hagræðing vegna sameiningar mjólkursamlaga hefði skilað sér til neytenda. Tölur Hagfræðistofnunar náðu til ársins 2014; eftir það hefur sigið á ógæfuhliðina eins og áður sagði og mjólkurafurðir hækkað umfram aðrar vörur.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu lagði Hagfræðistofnun til að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum yrði afnumin, tollar yrðu lækkaðir til að gera mjólkurvörur frá nágrannalöndunum samkeppnishæfar hér á landi og í framhaldinu yrði afnumi opinber verðlagning á nokkrum grunnmjólkurvörum, sem enn er í gildi. Þessum tillögum Hagfræðistofnunar hafa stjórnvöld ekki gefið neinn gaum. Sjónarmið þeirra sem tala fyrir aukinni samkeppni í mjólkuriðnaðinum virðast almennt ekki eiga upp á pallborðið, að minnsta kosti hafði núverandi landbúnaðarráðherra fyrir því að fækka slíkum röddum í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga sem átti að stuðla að „þjóðarsamtali“ og „þjóðarsátt“ um landbúnaðinn.

Allir hafa gott af samkeppni
Fáir draga í efa mikilvægi kúa- og sauðfjárbúskapar fyrir atvinnulíf, byggðir og menningu landsins. Íslenzkur mjólkuriðnaður framleiðir frábærar vörur sem neytendur hafa tekið vel. En hann þarf samkeppni eins og aðrar atvinnugreinar. Allir hafa gott af samkeppninni; það vita þeir vel sem stýra fyrirtækjum í heild- og smásöluverzlun og hafa þurft að gera betur til að standast aukna erlenda samkeppni eftir innkomu fyrirtækja eins og Costco og H&M á íslenzkan markað. Það er löngu tímabært að leyfa vindum frjálsrar samkeppni að leika um íslenzkan mjólkuriðnað. Hún er á endanum alltaf bezt fyrir hagsmuni heildarinnar.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning