Margir hafa skoðun á bókun 35 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en færri vita nákvæmlega hvað í henni felst eða hvernig innleiðing hennar í íslenskan rétt á sínum tíma hefur haft áhrif á hagsmuni fólks og fyrirtækja á Íslandi. Að hluta til snýst málið um að Ísland standi við skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum og að Íslendingar geti byggt rétt sinn á samningnum eins og borgarar annarra EES-ríkja. Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska viðskiptaráðið efna til opins morgunverðarfundar 11. mars næstkomandi kl. 8.30-10, þar sem farið verður yfir þýðingu málsins, tilurð frumvarps utanríkisráðherra sem liggur nú fyrir Alþingi og hvaða hagsmuni íslensk fyrirtæki hafa af því að frumvarpið verði samþykkt. Fundurinn var áður á dagskrá 29. október sl. en var frestað vegna kosninga og stjórnarskipta. Nú hefur á ný verið mælt fyrir málinu á Alþingi.
Dagskrá:
Hvað er bókun 35 og hvað þýðir hún fyrir íslenska hagsmuni?
Gunnar Þór Pétursson, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og formaður starfshóps sem samdi frumvarp utanríkisráðherra
Af hverju eru það hagsmunir íslenskra fyrirtækja að Alþingi samþykki frumvarpið um bókun 35?
Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og formaður ÍEV
Fundarstjóri er Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og ÍEV.
Íslensk-evrópska verslunarráðið er eitt af þremur millilandaviðskiptaráðum, sem Félag atvinnurekenda rekur. Sérstakt viðfangsefni ráðsins er að beita sér fyrir því að rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi sem best og að allir aðilar samningsins standi við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.
Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda í Skeifunni 11B (3. hæð, gengið inn á milli Lyfju og Zo-on). Léttur morgunverður er í boði. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir, en skráning er nauðsynleg hér að neðan.