Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar 15. október næstkomandi um veikindarétt starfsmanna og vaxandi misnotkun á honum. Málum sem varða slíka misnotkun, þ.e. að skilað sé inn læknisvottorðum um veikindi án þess að um raunveruleg veikindi sé að ræða, hefur fjölgað hjá lögfræðiþjónustu FA. Þá er það orðið alltof algengt að sé starfsmanni sagt upp – eða jafnvel ef hann segir sjálfur upp – framvísi viðkomandi læknisvottorði um veikindi út uppsagnarfrestinn. Því er jafnvel haldið fram að vegna þessarar þróunar sé kjarasamnings- og lögbundinn gagnkvæmur uppsagnarfrestur atvinnurekenda og launþega að hverfa.
Þessi mál hafa verið mjög í umræðunni meðal atvinnurekenda að undanförnu. Inngangserindi á fundinum heldur Gunnar Ármannsson lögmaður, sviðsstjóri rekstrarsviðs hjá VHE (Verkvit-hugvit-eining), en hann er jafnframt fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands. Gunnar mun m.a. fjalla um ákvæði laga og kjarasamninga um veikindarétt, rétt vinnuveitenda til að krefjast læknisvottorða og tilkynninga um veikindi og alveg sérstaklega veikindarétt á uppsagnarfresti.
Fundurinn er lokaður félagsfundur, þar sem við vonumst jafnframt til að félagsmenn geti miðlað af eigin reynslu og sótt ráð og ábendingar.
Fundurinn er morgunverðarfundur, haldinn kl. 8.30-10 í fundarsal FA í Skeifunni 11 (á 3. hæð, fyrir ofan Lyfju og Zo-on). Léttur morgunverður er í boði. Skráning á fundinn hér að neðan.