Ný Evrópureglugerð um persónuvernd kemur til framkvæmda í maí 2018 og mun hún umbreyta starfsumhverfi allra sem vinna með persónuupplýsingar, þar með talinna fyrirtækja í margvíslegum geirum atvinnulífsins. Mikilvægt er að fyrirtæki séu í stakk búin við að standast strangar kröfur hinnar nýju löggjafar, aðlagi starfsemi sína að settum reglum og tryggi einstaklingum þann aukna rétt sem reglugerðin veitir þeim.
Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd, flytur fyrirlestur á morgunverðarfundi Félags atvinnurekenda fimmtudaginn 23. nóvember undir yfirskriftinni „Persónuvernd – lykilatriði í rekstri.
Fyrirlesturinn fjallar um helstu meginreglur hinnar nýju löggjafar auk þess sem farið er yfir nýjar og auknar kröfur sem gerðar eru til aðila sem vinna með persónuupplýsingar. Einnig verður farið yfir réttindi einstaklinga gagnvart þeim sem vinna með og búa yfir persónuupplýsingum og þau lögbundnu úrræði sem einstaklingum standa til boða ef brotið er á réttindum þeirra. Loks verður farið yfir aukið samstarf evrópskra eftirlitsstofnana og þær auknu valdheimildir sem þeim eru fengnar, m.a. mjög háar sektarheimildir. Að loknu erindi Vigdísar Evu gefst fundarmönnum kostur á að spyrja út í hina nýju löggjöf og áhrif hennar.
Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Fundurinn hefst kl. 9 og stendur til kl. 10. Léttur morgunverður er í boði.
Fundarstjóri er Inga Skarphéðinsdóttir, lögfræðingur FA.
Skráning á fundinn hér neðar á síðunni.