Íslensk-evrópska viðskiptaráðið og Félag atvinnurekenda efna til morgunverðarfundar föstudaginn 1. júní um afleiðingar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu – Brexit. Fyrirlesari er Jacques Lafitte, ráðgjafi í Brussel, sem er á lista Financial Times yfir 30 „Eurostars“, þá einstaklinga sem hafa mest áhrif á stefnumótun og löggjöf Evrópusambandsins. Yfirskrift erindis Lafitte er „Brexit crunch time: what scenarios, what consequences?“
Á meðal þess sem Lafitte mun ræða í erindi sínu er eftirfarandi:
– Brexit frá sjónarmiði ríkjanna 27 sem verða eftir í ESB
– Getur Bretland farið yfir eitthvert af „rauðu strikunum“ varðandi Evrópudómstólinn, innri markaðinn eða tollabandalagið? Mun það gera það?
– Vandamálið varðandi landamæri Bretlands og Írlands og náin tenging þess við umræður um hvort Bretland geti verið í tollabandalagi við ESB
– Hversu líklegt er að ekkert samkomulag náist milli Bretlands og ESB? Hverjar yrðu afleiðingarnar af því?
– Hvað geta íslensk fyrirtæki gert til að takmarka skaðann af Brexit?
Jacques Lafitte er einn af stofnendum og eigendum ráðgjafafyrirtækisins Avisa Partners, sem starfar í Brussel og París. Hann hefur átt langan feril í stjórnsýslu Þýskalands, Frakklands og Evrópusambandsins og var meðal annars einn af nánum samstarfsmönnum Yves-Thibault de Silguy, sem stýrði upptöku evrunnar. Lafitte starfaði síðan hjá Microsoft áður en hann stofnaði ráðgjafafyrirtæki sitt.
Fundarstjóri er Anna Kristín Kristjánsdóttir, varaformaður FA.
Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7 og stendur frá kl. 8.30 til kl. 10.00. Léttur morgunverður í boði. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig hér neðar á síðunni.